Kings of Leon til landsins

Kings of Leon, ein vinsælasta rokkhljómsveit heims, heldur risatónleika í nýju Laugardalshöllinni fimmtudaginn 13. ágúst. Þetta er í fyrsta sinn sem hljómsveitin heimsækir landið.

Í tilkynningu frá Senu kemur fram að það sé ekki á hverjum degi sem jafnvinsæl og eftirsóknarverð rokkhljómsveit heldur tónleika hérlendis.

Kings of Leon hefur verið ein sú stærsta í heimi síðustu ár og viðburðurinn því mikill fengur fyrir Íslendinga. Einnig er það orðið ljóst að hér eru á ferðinni langstærstu tónleikar ársins á Íslandi, og einu sannkölluðu risatónleikar ársins.

Hljómsveitina, sem var stofnuð árið 1999 í Nashville Tennessee, skipa bræðurnir Caleb, Nathan og Jared Followill og frændi þeirra Matthew Followill.

Miðasala á tónleikana hefst þriðjudaginn 16. júní. Póstlistaforsala fer fram daginn áður en almenn sala hefst. Nánar verður tilkynnt um miðasöluna, forsölur, miðaverð og verðsvæði innan skamms.

Íslensk hljómsveit hitar upp fyrir Kings of Leon og verður einnig tilkynnt um hvaða sveit það er innan skamms.

Auglýsing

læk

Instagram