Kjósendur Framsóknar strikuðu oftast yfir Sigmund Davíð, ekki ljóst hvort þetta hefur áhrif á röðun

Kjósendur Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi strikuðu oftast yfir nafn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Útstrikanir á seðlum Framsóknarflokks voru áberandi fleiri en hjá öðrum flokkum.

Þetta kemur fram á vef RÚV. 

Samkvæmt upplýsingum frá formanni yfirkjörstjórnar í Norðausturkjördæmi er ekki búið að fara yfir alla þá seðla sem var breytt með yfirstrikunum eða endurröðun á lista. Farið verður yfir þá í dag og þeim skilað til landskjörstjórnar á morgun, en þó er búið að flokka þá eftir framboðum.

Nákvæmar tölur liggja því ekki fyrir en langflestir seðlarnir tilheyra Framsóknarflokknum og þar var nafn Sigmundar Davíðs, oddvita flokksins í kjördæminu, oftast strikað út. Ekki er ljóst hvort þetta mun hafa einhver áhrif á röðun þingmanna í kjördæminu, líkt og kemur fram í frétt RÚV. 

Kjósandi getur einnig einfaldlega strikað einstaka frambjóðendur út af listanum til þess að minnka möguleika þeirra á því að ná kjöri og kallast það útstrikun.

Auglýsing

læk

Instagram