Sims 4 frír til að hita upp fyrir næsta leik

Fimmti leikurinn í Sims seríunni hefur verið staðfestur – leikurinn er í framleiðslu og boðar útgáfu á næstu árum. Þetta staðfesti framleiðandinn Maxis í hálftíma streymi í gær þar sem sýndir voru ýmsir eiginleikar. 

Biðin eftir því að byggja hús, gera draumafjölskyldu og fjarlægja svo stigana úr sundlauginni er nokkuð löng. Talið er að leikurinn muni ekki koma út fyrr en í fyrsta lagi árið 2025.

Til að mýkja biðina hefur útgefandinn EA ákveðið að gera Sims 4 að fríleik.

Fjölbreyttari spilun

Verkefnið ber vinnutitilinn „Project Rene.“ Í streymi gærdagsins fengu spilarar að sjá stutt myndefni frá framleiðsluferlinu. Samkvæmt því verður mikið púður lagt í að gera auðveldara fyrir fólk að spila á mismunandi tækjum og deila á milli sín sköpunarverkum.

Það er því líklegt að leikurinn verði á einhvern hátt spilanlegur í snjallsíma.

Að öðru leyti verður byggingarhamurinn mun fjölbreyttari en áður og fleiri leiðir verða til að umbreyta húsgögnum.

Sjá einnig:

Fleiri og fleiri aðferðir til að græða pening á spilendum


Frír á öllum tölvum

Sims serían fagnaði 22 ára afmæli fyrr á þessu ári. Leikirnir hafa alltaf notið mikilla vinsælda, en fyrsti leikurinn skaut Maxis upp á stjörnuhimininn.

Síðasti leikurinn kom út árið 2014 og vakti mikla lukku. Talið er að Sims 4 hafi grætt meira en einn milljarð dollara. Það er helst í gegnum svokallaða aukapakka. Spilarar Sims þekkja þetta vel, en í kjölfar Sims leikja koma ávallt alls konar aukapakkar sem hafa eitthvert þema, gera spilurum kleift að gefa „Simsunum“ sínum gæludýr, nýjar týpur af íbúðum, fleiri borgir til að búa í og húsgögn.

Í júlí síðastliðnum var ákveðið að hætta að rukka fyrir grunnleikinnn. Frá og með gærdeginum er hægt að sækja Sims 4 á Playstation og Xbox, einnig á PC og Mac í gegnum Origin forritið. Þá verður áfram rukkað fyrir aukapakka.

 

Auglýsing

læk

Instagram