today-is-a-good-day

Fleiri aðferðir til að græða pening á spilendum

Electronic Arts hefur verið eitt stærsta tölvuleikjafyrirtæki heims í mörg ár. Staðan kom ekki til þeirra óvart, fyrirtækið hefur lengi verið þekkt fyrir vafasöm vinnubrögð út á við og fyrir dræma meðferð á starfsfólki sínu.

Þetta og meira kemur fram í nýjasta þætti Tölvuleikjaspjallsins. Þar er fjallað um sögu EA frá 2011 til nútímans.

Margt átti sér stað innan veggja fyrirtækisins á þessum rúmu tíu árum. Meðal annars var fyrirtækið kosið hið versta í Bandaríkjunum ekki einu sinni, heldur tvisvar!

Einkaleyfi þeirra á Star Wars leikjum skilaði um þremur milljörðum dollara í kassann, en spilarar hafa gagnrýnt gæði þessara leikja harðlega. Það var helst Battlefront II sem vakti upp reiði samfélagsins, leikurinn kostaði 70 dollara en flestar af ástsælustu hetjum myndanna voru læstar á bak við örgreiðslur. Einhver reiknaði út að til þess að aflæsa einni hetju neyddust spilarar til að eyða allt að fjörutíu klukkutímum. Nú, eða reiða fram veskið og fá hetjuna fyrir nokkra auka dollara.

Gagnrýni spilara virðist þó hafa alið eitthvað af sér. EA er nú búið að lifa af sirka fimm ár án þess að valda miklum usla og forsvarsfólk fyrirtækisins virðist vera viljugt til að taka skref í rétta átt. Hvort að endist er önnur saga.

Þessi þáttur er síðasti þátturinn í þríleik Tölvuleikjaspjallsins um Electronic Arts. Í fyrsa þættinum var fjallað um upphaf og þróun fyrirtækisins. Strax við upphaf reksturs voru teikn á lofti um viðskiptahætti EA. Til dæmis er sagan um SEGA Genesis leikjatölvuna sögð. Forsvarsmenn SEGA vildu ekki leyfa öðrum fyrirtækjum – eins og EA – að framleiða leiki fyrir tölvuna. Forsvarsmenn EA tóku það ekki í mál og ævintýralegt rán á par við Mission Impossible myndirnar fór í gang. Heyrn er sögu ríkari.

Í öðrum þættinum er fjallað um fyrirtækið frá aldamótum til ársins 2010. EA varð á þessum tíma heimsþekkt fyrir EA Sports og aðra goðsagnakennda leiki. Einnig varð fyrirtækið frægt af öðrum ástæðum – þau voru dregin fyrir rétt út af lélegri framkomu við starfsfólk sitt. Starfsmenn sem unnu að leikjum eins og Sims 2 þurftu mörg hver að vinna hundrað klukkutíma á viku – öll yfirvinna var ólaunuð.

Hlusta má á þættina hér:

Auglýsing

læk

Instagram