Langaði stundum að sparka í Árna

Heimildarmyndin Óli Prik, um handboltamanninn Ólaf Stefánsson, er væntanleg í byrjun febrúar.  Í viðtali í Fréttablaðinu í dag segist Ólafur stundum hafa viljað sparka í leikstjóra myndarinnar, sem fylgdi honum eins og skugginn í eitt og hálft ár og varð vitni að sigrum og ósigrum í lífi hans og starfi.

Árni Sveinsson leikstýrir myndinni en á meðal fyrri mynda hans eru Í skóm drekans, Með hangandi hendi og Backyard. Ólafur segir í Fréttablaðinu að það hafi verið alveg steikt að samþykkja að þetta:

Ég var nýr í starfi, á nýjum stað, að takast á við verkefni sem var ekki sambærilegt við neitt sem ég hafði gert áður. Að verða stjórnandi og samþykkja að vera með gaur á öxlinni í öllu þessu var dálítið klikkað. Ég sé samt alls ekki eftir þessu, það er ekki það. Málið er að ef maður hefur ekkert að fela þá er þetta í lagi. En auðvitað voru augnablik þar sem mig langaði til þess að sparka í Árna!

Ólafur segir í Fréttablaðinu að engin atriði séu uppsett, ekkert plat og engin „forsíðudramatík“. Hann segir að myndin eiginlega gallhörð.

„En ég hefði kannski sett aðrar senur inn og það hefði alveg mátt ritskoða sumt,“ segir Ólafur í Fréttablaðinu.

„Árni er ögrandi og ég óttaðist satt best að segja dálítið Í skóm drekans sem hann gerði á sínum tíma. Sú mynd er náttúrulega háðsheimildarmynd (mockumentary) en hvort Óli prik endar sem slík mynd – það verða aðrir að dæma um.“

Ólafur lagði keppnisskóna á hilluna og tók við starfi aðalþjálfara hjá meistaraflokki Vals í handbolta árið sem tökur myndarinnar stóðu yfir.

„Málið með myndina er að hún átti alltaf að snúast um þessu umskipti. Árni kom til mín til Katar og þar kviknaði hugmyndin að því að filma þessa sögu um mig að taka við Val. Þetta er æskufélagið mitt og það fylgja þessu óneitanlega sterkar tilfinningar,“ segir Ólafur í Fréttablaðinu.

„Eina senan sem ég sé eftir endurvarpar því eflaust. Þar er ég að missa mig á leikmennina inni í klefa í hálfleik, þó svo að ég hafi vitað manna best að ég var að gera óraunhæfar kröfur. En það er pressa í svona starfi og auðvelt að gleyma sér og þarna gleymdi ég mér og lét það bitna á strákunum. Það var ekki gott. Eftir þetta atvik hugsaði ég að þetta mætti ekki gerast aftur. Hugsaði mikið um hvers þetta starf krefst af manni. Fyrir mann eins og mig sem hefur alltaf verið stjórnað eru það mikil umskipti að fara sjálfur í stjórnunarstöðu. Þess vegna er þetta þroskasaga. Og vonandi á það líka við um strákana en ekki bara mig því þetta snerist um okkur sem heild.“

Brot úr atriðinu má sjá hér fyrir neðan:

Óli Prik – Beita nr. 1 from Netop Films on Vimeo.

Auglýsing

læk

Instagram