Lögmaður Sveins Gests segir rannsókn lögreglu hafa leitt í ljós að hinn látni var undir áhrifum fíkniefna

Lögmaður Sveins Gests Tryggvasonar, sem grunaður er um að hafa myrt Arnar Jónsson Aspar í Mosfellsdal í júlí, segir í yfirlýsingu að rannsókn lögreglu hafi leitt í ljós að Arnar hafi verið undir miklum áhrifum fíkniefna þegar hann lést. Þetta er þvert á það sem kom meðal annars fram í umfjöllun Stundarinnar um málið þar sem Arnar var sagður hafa verið edrú síðustu ár.

Vísir birtir yfirlýsinguna frá lögmanni Sveins en hún kemur í kjölfarið á umfjöllun í fréttum Stöðvar 2 í gær. Þar var meðal annars fjallað um tvær mögulegar orsakir á láti Arnars Jónssonar Aspar: Hálstak og þvinguð frambeygð staða sem Sveinn Gestur hélt hinum látna í og svokallað æsingsóráðsheilkenni sem hinn látni var greindur með.

Í yfirlýsingunni frá lögmanni Sveins Gests kemur fram að hann hafi frá upphafi neitað sök í málinu. „Umbjóðandi minn neitar því alfarið að hafa slegið til hans né að hafa tekið hann hálstaki,“ segir þar.

Hann vill ítreka að aldrei var veist að hinum látna, heldur var umbjóðandi minn ásamt öðrum sakborningum í málinu að verjast áras frá hinum látna, þar sem hann var í sturlunarástandi og undir miklum áhrifum fíkniefna líkt og fram hefur komið við rannsókn lögreglu.

Sex manns voru upphaflega handtekin í málinu en öllum hefur verið sleppt nema Sveini Gesti sem situr í gæsluvarðhaldi. Rannsókn lögreglu er lokið en héraðssaksóknara tekur ákvörðun um hvort gefin verði út ákæra í málinu.

Auglýsing

læk

Instagram