Mæðgur frá Kaliforníu slógust óvænt í hópinn með Sjóbaðsfélagi Akraness, sungu jólalög í sjónum og stigu hringdans

Mæðgur frá Kanada sungu jólalög og stigu hringdans í sjónum við Akranes í snemma á aðfangadagsmorgun. Þær höfðu reyndar aðeins ætlað að skella sér í upphitaða sundlaugina en snerist hugur þegar þær sáu prúðbúnar konur í Sjóbaðsfélagi Akraness.

Bjarnheiður Hallsdóttir deildi skemmtilegri jólasögu með meðlimum hópsins Bakland ferðaþjónustunnar.

„Snemma í morgun þegar kvenfólkið í Sjóðbaðsfélagi Akraness þusti prúðbúið inn í búningsklefa í sundlauginni, til þess að fara í árlegt aðfangadagssjósund, var þar fyrir miðaldra kennari frá Kaliforníu með dóttur sinni á leið í laugina,“ skrifar Bjarnheiður.

Kennarinn sýndi íslensku konunum, útbúnaði þeirra og fyrirætlunum þeirra mikinn áhuga.

„Úr varð að hún ákvað að skella sér með í sjóinn. Dóttirin var reyndar eitthvað tregari til. Það endaði þó með því að þær fengu báðar lánaðar græjur og skelltu sér með Skagamönnum á sundfötunum út í snjóinn og þaðan út í ískaldar öldur Faxaflóans,“ skrifar Bjarnheiður.

Í sjónum voru sungin jólalög og stiginn hringdans eins og venja er á þessum degi. Mæðgurnar gáfu heimamönnum ekkert eftir og tóku fullan þátt og datt ekki af þeim brosið á meðan.

„Á eftir var þeim boðið upp á snaps og smákökur í heita pottinum, áður en þær héldu síðan norður í land, þar sem þær ætla að eyða jólunum,“ skrifar Bjarnheiður einnig.

Auglýsing

læk

Instagram