Mætti sem yfirmaður sinn í vinnuna, lakkrísrör kom í staðinn fyrir níkótínstautinn

Garðar Benedikt Sigurjónsson, handboltamaður í Fram og blaðamaður á Séðu og heyrðu, mætti sem yfirmaður sinn, Eiríkur Jónsson ritstjóri, í vinnuna í dag. Eiríkur greinir sjálfur frá þessu á vefsíðu sinni.

Sérstakur hrekkjavökudagur var í dag hjá útgáfufélaginu Birtíngi og Garðar hlýtur að vinna búningakeppnina, ef eitthvað er að marka myndina hér fyrir ofan. Hann segir í samtali við Nútímann að búningurinn hafi vakið mikla lukku.

Mér fannst fyndið að mæta sem Eiríkur; með gleraugu, hárið sleikt aftur og í frakka. Hann er alltaf með nikótínstautinn sinn. Ég fann ekki svoleiðis og kom því við í sjoppu, keypti lakkrísrör og skar niður.

Garðar bætir við að honum hafi tekist ágætlega að ná hægu göngulagi Eiríks. Spurður hvort hann sé góð eftirherma hlær hann og segist ekki ætla að leggja það fyrir sig.

Spurður hvernig Eiríkur tók í búninginn segir Garðar að honum hafi fundist hann mjög fyndinn og stillt upp myndatökunni. Garðar segist þó ekki hafa gengið svo langt að taka stjórnina á blaðinu en hann reyndi þó að troða Eiríki í föt af sér.

„Hann tók það ekki í mál. Ætli ég verði ekki að snúa hann niður,“ segir Garðar laufléttur.

Auglýsing

læk

Instagram