Mjólkursamsalan sendir Arla tóninn: Kallar útlenska skyrið jógúrt í nýrri auglýsingu

Mjólkursamsalan sendir danska mjólkurrisinum Arla tóninn í nýrri auglýsingu sem hefur verið birt á Youtube. Auglýsinguna má sjá hér fyrir neðan en þar hittir íslenska skyrið kollega sinn frá Arla og endar á að kalla það jógúrt.

Sem er það versta sem hægt er að kalla skyr.

Það vakti mikla athygli á dögunum þegar danski mjólkurrisinn Arla sagðist framleiða skyr á Höfn í Hornafirði í umræðum á Facebook-síðu sinni. Skyrið er hins vegar framleitt í Þýskalandi en Ísland er áberandi í auglýsingum fyrir skyrið.

Sjá einnig: Er Arla að hefna sín? Kvartaði undan nafni á íslensku fyrirtæki

Mjólkursamsalan hefur sölu á skyri í Bretlandi í vor í samkeppni við Arla.

Jón Axel Pétursson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs hjá MS sagði í þætti í Reykjavík síðdegis á dögunum að það væri púkalegt af Arla að „stela íslenskri ímynd í hagnaðarskyni.“

Það sem þeir gerðu nýtt í Bretlandi sem okkur finnst svolítið sérstakt er þessi sterka Íslandstenging í auglýsingunni þar sem þeir gefa hálfpartinn í skyn að varan sé frá Íslandi

Jón Axel sagðist ekki óttast samkeppnina.

„Þó að Arla sé hundrað sinnum stærra fyrirtæki en MS þá kvíðum við ekki samkeppninni en okkur finnst fúlt að þeir ætli að stela íslensku náttúrunni, íslensku ímynd sem þeir eiga ekkert með að gera.“

Hér má sjá auglýsingu MS.

Auglýsing

læk

Instagram