Mótmæla við leik Íslands og Ísraels

Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta mætir Ísrael í undankeppni HM 2015 á Laugardalsvelli á laugardaginn. Félagið Ísland – Palestína og hreyfingin BDS Ísland – sniðganga fyrir Palestínu hafa sent frá sér sameiginlega tilkynningu þar sem þau harma að sé verið að bjóða ísraelska landsliðinu til landsins.

Ísraelska landsliðið er hér sem fulltrúar ríkis sem stundar grimmilegar árásir á óbreytta borgara í Palestínu, hernám og landrán á palestínsku landi. Herskylda í Ísrael er þrjú ár fyrir karlmenn og tvö ár fyrir konur – og því er verið að bjóða hér velkomna tilvonandi og fyrrverandi hermenn í her sem stundar mannréttindarbrot og hefur að mati mannréttindarsamtaka stundað stríðsglæpi í nýafstaðinni innrás sinni á Gaza.

Samtökin telja óviðeigandi að bjóða ísraelskt landslið velkomið á meðan komið er í veg fyrir að palestínskir íþróttamenn geti stundað íþróttir eða leikið fyrir land sitt og þjóð. „Hernám Ísraelshers í Palestínu og skerðing á ferðafrelsi íbúa herteknu svæðanna – sem og árásir á íþróttafólk, fangelsanir og eyðilegging á íþróttamannvirkjum – kemur í veg fyrir að palestínsk landslið og íþróttamenn geti keppt í sínu heimalandi og í fjölmörgum tilvikum á erlendum vettvangi,“ segir í tilkynningunni. „Dugar þar að líta til palestínska karlalandsliðsins í knattspyrnu, en liðsmenn þess hafa verið fangelsaðir og neitað um ferðaheimildir.“

Boðað er til samstöðufundar á laugardaginn klukkan 16.30, fyrir framan aðalinnganginn á Laugardalsvelli, fyrir landsleik Íslands og Ísraels í fótbolta. „Við ætlum að lyfta rauðum spjöldum á loft. Við hvetjum fólk til að mæta með rauð spjöld – heimatilbúin eða keypt, stór eða smá – og sýna hernámi Ísraelshers í Palestínu rauða spjaldið!“

 

Auglýsing

læk

Instagram