Netflix vinnur að opnun á Íslandi

Afþreyingarrisinn Netflix vinnur að því að opna fyrir þjónustu sína hér á landi. Samkvæmt heimildum Nútímans er undirbúningur er hafinn en óvíst hvenær opnað verður fyrir þjónustuna.

Tvennt gerist áður en Netflix getur opnað hér á landi:

Netflix þarf að semja við öll stóru kvikmyndaverin ásamt hundruðum annarra aðila um rétt á sölu og leigu á stafrænu efni fyrir Ísland. Þetta þarf að gera fyrir hvert markaðssvæði fyrir sig. Þá er líklegt að Netflix myndi semja um réttinn á íslensku efni.

Svo hyggst Netflix semja um notkun á íslenskum textum. Heimildir Nútímans herma að fyrirtækið sé þegar byrjað á því og Íslensk fyrirtæki sem sjá um textun séu að þjónusta Netflix.

Þetta gerir Netflix þrátt fyrir að þurfa þess ekki þar sem ólíklegt er að starfsemi efnisveitunnar falli undir gildissvið fjölmiðlalaga. Í skýrslu rýnihóps á vegum mennta- og menningarmálaráðherra um greiningu á hindrunum fyrir streymiþjónustu kemur eftir farandi fram:

Það er hins vegar ólíklegt að starfsemi Netflix myndi falla undir gildissvið fjölmiðlalaga nema félagið hefði staðfestu hér á landi. Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Netflix, er Netflix í Evrópu með staðfestu í Lúxemborg. Ef Netflix myndi hefja starfsemi hér á landi með sambærilegum hætti og gert er í öðrum Evrópuríkjum myndi félagið þar af leiðandi ekki þurfa að uppfylla ákvæði 29. gr. fjölmiðlalaga um tal og textun. Framangreint er í samræmi við þær upplýsingar sem fjölmiðlanefnd hefur fengið frá systurnefndum/stofnunum á Norðurlöndum þar sem starfsemi Netflix er ekki skráningarskyld og fer samkvæmt lögum í Lúxemborg.

Þrátt fyrir að þjónusta Netflix sé ekki í boði á Íslandi er talið að um 20 þúsund heimili hérlendis séu með aðgang að þjónustunni. Þetta sýndu niðurstöður könnunar MMR fyrir Viðskiptablaðið. Einn af hverjum sex Íslending­um eða 16,7% var þá með aðgang að Netflix á sínu heimili samkvæmt könnuninni. 5,5% svarenda sögðust ekki vera með þjón­ustuna en að þeir ætluðu að fá sér áskrift á næstu sex mánuðum.

Netflix hefur undanfarið unnið að því að opna fyrir þjónustu sína í Evrópu, nú síðast í Þýskalandi, Frakklandi, Austurríki, Sviss, Belgíu og Lúxemborg í september. Fyrirtækið býður þegar upp á þjónustu sína í Bandaríkjunum, Kanada, Mexíkó, Suður-Ameríku, Bretlandi, Írlandi, Hollandi og á Norðurlöndunum.

Þá er orðrómur um að Netflix sé að kaupa réttinn á áströlskum sjónvarpsþáttum og ætli að opna fyrir þjónustuna þar og í Nýja Sjálandi á fyrri hluta árs 2015. Talsmaður Netflix hefur neitað að tjá sig um þetta.

Netflix hefur ekki svarað fyrirspurnum Nútímans en fyrirtækið er ekki þekkt fyrir að ljóstra upp áformum sínum með miklu fyrirvara.

Auglýsing

læk

Instagram