Opnað fyrir tilnefningar til Íslensku vefverðlaunanna

Opnað hefur verið fyrir innsendingar til Íslensku vefverðlaunanna 2014 á vef SVEF, samtaka vefiðnaðarins. Íslensku vefverðlaunin hafa verið veitt frá árinu 2000 eru uppskeruhátíð vefiðnaðarins á Íslandi.

Samkvæmt tilkynningu frá SVEF verða í ár veitt verðlaun í 15 flokkum.

Fjöldi flokkanna endurspeglar breidd þeirra verkefna sem vefiðnaðurinn á Íslandi kemur að. Í ár hefur bæst í flóruna einn glænýr flokkur: Besta þjónustusvæðið, sem tekur til aðgangsstýrða þjónustusvæða sem einnig eru oft nefnd Mínar síður.

Opið verður fyrir innsendingar til miðnættis 30. desember 2014 og SVEF hvetur fyrirtæki, stofnanir, félagasamtök og einstaklinga til að senda inn sína vefi eða verkefni en innsendingar eru öllum opnar.

Vísindavefurinn var valinn besti vefmiðillinn í fyrra og vefur Nikita var valinn besti vefurinn. Úrslitin í fyrra má finna hér.

Dómnefnd Íslensku vefverðlaunanna er skipuð 7-8 einstaklingum með sérþekkingu og brennandi áhuga á vefmálum. Mikil áhersla er lögð á að setja saman breiðan hóp einstaklinga með ólíka sérfræðiþekkingu og bakgrunn, samkvæmt tilkynningu.

Verðlaunin verða afhent við hátíðlega athöfn 30. janúar.

Verðlaunaflokkar til Íslensku vefverðlaunanna 2013

Aðgengilegasti vefurinn
Besti innri vefurinn
Besta þjónustusvæðið
Besta appið
Besta markaðsherferðin á netinu
Besti einstaklingsvefurinn
Besti non-profit vefurinn
Besti vefmiðillinn
Besti opinberi vefurinn
Besti fyrirtækjavefurinn (Lítil og meðalstór fyrirtæki)
Besti fyrirtækjavefurinn (Stærri fyrirtæki)
Frumlegasti vefurinn
Athyglisverðasti vefurinn (að mati félagsmanna SVEF)
Besta hönnun og viðmót
Besti íslenski vefurinn 2013

Auglýsing

læk

Instagram