Reif poka með fjórum peysum af þjófum á Laugaveginum: „Við gerum þetta svona í sveitinni“

Gunnar Þór Geirsson stöðvaði tvo þjófa á Laugaveginum í gær sem höfðu tekið fjórar peysur í versluninni Icewear ófrjálsum höndum. Gerði hann sér lítið fyrir, elti þá uppi og reif af þeim poka með peysunum.

Hann segist í samtali við Nútímann hafi verið á gangi með fjölskyldunni þegar annar mannanna kom út úr búðinni með peysurnar. Hann settist á tröppur næstu búðar og áttaði Gunnar Þór sig ekki strax á því að þarna væri þjófur á ferð.

Félagi mannsins aðstoðaði hann við að setja peysurnar í poka og í þann mund kom starfsmaður verslunarinnar út og sagði vegfarendum að þeir hefðu stolið peysunum, útskýrir Gunnar Þór.

Þeir ætluðu að fara að koma sér í burtu en þá gekk ég að þeim og reif pokann af þeim.

Gunnar Þór og fjölskylda héldu áfram göngu sinni eftir atvikið en skömmu síðar sáu þau mennina tvo aftur.

Ákvað hann að taka mynd af þeim og hafði nýlokið við það þegar lögregla kemur keyrandi eftir götunni. Ræddi Gunnar Þór við lögreglumennina og tóku þeir mynd af myndinni sem hann hafði undir höndum.

Markaðsstjóri Icewear hefur þegar haft samband við Gunnar Þór og ætlar að launa honum snarræðið með gjafabréfi.

„Við gerum þetta svona í sveitinni, fyrir austan,“ segir Gunnar Þór en hann og fjölskylda hans eru nýflutt til höfuðborgarinnar frá Stokkseyri.

Auglýsing

læk

Instagram