RÚV tók yfir 20 ár af tónlist

Gunnar Lárus Hjálmarsson, Dr. Gunni, vinnur nú að sjónvarpsþáttaröð um íslenska dægurlagasögu fyrir Sjónvarpið. Þetta kemur fram í Fréttatímanum í dag. Doktorinn hyggst kafa ofan í safn RÚV og sýna lifandi myndir. Þ.e.a.s þær sem ekki er búið að henda.

„Sagan segir að Ríkissjónvarpið hafi verið ágætlega duglegt við að gera þætti með popphljómsveitum síðan byrjaði árið 1966,“ segir Gunni í viðtali Fréttatímans.

„Samkvæmt því sem maður hefur heyrt er búið að eyða stórum hluta þess sem var tekið upp frá 66 til kannski 86. Það er algjörlega svakalegt. Þetta var víst tekið upp á dýrar spólur sem hægt var að taka upp á aftur og aftur.“

Það hafa ábyggilega verið tekin upp viðtöl við stjórnmálamenn yfir þetta sem enginn hefur áhuga á. Staðreyndin er sú að fólk hefur áhuga á listamönnum og kynlegum kvistum. Það er undantekning ef einhver hefur áhuga á stjórnmálamönnum. Það eru þá bara helstu menn, eins og Jónas frá Hriflu eða Ólafur Thors.

Gunni er einn elsti poppfræðingur þjóðarinnar. Hann samdi spurningarnar í þættinum Popppunkti, sem sýndur var á Skjá einum og síðar á RÚV. Þá hafa komið út tvö samnefnd borðspil. Síðast sendi hann frá sér poppritið Stuð vors lands fyrir tveimur árum.

Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri Sjónvarpsins,  átti hugmynd að gerð sjónvarpsþátanna og hefur Dr. Gunni varið árinu í vinnu við þá, ásamt þeim Erni Marinó og Þorkeli Harðarsyni í kvikmyndagerðinni Markeli.

„Við ætlum að rekja dægurtónlistarsögu Íslands frá nítjándu öld og fram á okkar daga. Við verðum með safnefni í bland við ný viðtöl. Ætli þau verði ekki um 150 talsins og við erum búnir með svona helminginn,“ segir Gunni í Fréttatímanum.

Búið er að selja sýningarrétt að þáttunum á norrænar sjónvarpsstöðvar og eitthvað víðar, að sögn Gunna.

Fylgdu Nútímanum á Facebook og Twitter og þú missir ekki af neinu.

Auglýsing

læk

Instagram