Segir rappara hlutgera konur til að upphefja sjálfa sig

Íslenskir karlkyns rapparar hlutgera margir hverjir konur til þess að níða aðra karlmenn eða upphefja sjálfa sig. Þetta kemur fram í niðurstöðum lokaverkefnis Önnu Marsibil Clausen í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands.

Yfirskrift ritgerðarinnar er „Við elskum þessar mellur“ sem er vísun í samnefnt lag rapparana Blaz Roca og Emmsjé Gauta. Í niðurstöðunum kemur einnig fram að konur ber sjaldan á góma nema í tengslum við kynlíf og er þá yfirleitt skýrt að valdið yfir kvenlíkamanum er í höndum karlmanna.

Niðrandi nafnorð yfir konur eru misalgeng meðal karlkyns rappara og oftar en ekki er það samhengi orðanna en ekki orðin sjálf sem koma upp um kvenfyrirlitningu.

Í ritgerðinni tekur Anna Marsibil meðal annars fyrir textagerð Blaz Roca, Emmsjé Gauta, Gísla Pálma og tvíeykisins Helga og Arnars í Úlfi Úlfi. Hún segir að Úlfur Úlfur skeri sig úr hópnum þar sem ekkert nafnorð í öllum þeim lögum sem sveitin hefur gefið út sé beinlínis niðrandi fyrir konur.

Sjá einnig: Erpur lenti í lægðinni

Í niðurstöðunum kemur einnig fram að karlkyns rapparar virðist ekki alltaf meðvitaðir um þá kvenfyrirlitningu sem fram kemur í textum þeirra.

„Þeir eru þó í auknum mæli meðvitaðir um að kvenfyrirlitning í textum sé ekki nauðsynleg til að spegla hinupprunalegu gildi rappsins,“ segir hún.

„Allir þeir karlmenn sem nefndir eru í þessari ritgerð hafa til að mynda sent frá sér lög sem taka á persónulegum vandamálum frekar en sækja í vald gagnvart umheiminum. Þrátt fyrir að slíkir textar séu ekki nýlunda fer meira fyrir þeim en áður. Ekki er ólíklegt að sú þróun muni halda áfram eftir því sem rappið færist frá hipphopprótum sínum yfir í heim popptónlistar.“

Anna segir í niðurstöðunum mikilvægt að muna að sú kvenfyrirlitning sem kemur fyrir í rapptextum sé ekki sprottin úr hipphoppmenningu.

„Hún endurspeglar afstöðu til kvenna sem finna má mun víðar í samfélaginu, hversu gróf sem framsetningin kann að vera,“  segir hún.

„Íslenskir rapparar, bæði karlar og konur, eru í aðstöðu til þess að hafa áhrif á þessa afstöðu. Svo gripið sé til orða hins femíníska rithöfundar Michelle Wallace eru það hins vegar ekki aðgerðir karlmanna sem hafa og munu halda áfram að grafa undan kvenfyrirlitningu í rappi heldur raddir kvenna.“

Ritgerðina má lesa hér.

Auglýsing

læk

Instagram