Segir vinnustöðvun grunnskólakennara ólöglega, heimilt að sekta en það sjaldan gert

Aðgerðir grunnskólakennara í dag, sem fólust í því að leggja niður störf kl. 13.30 og ganga út úr skólunum, voru ólöglegar.

Þetta kemur fram í kvöldfréttum RÚV.

Sjá einnig: Uppsagnir kennara að mestu bundnar við tvo skóla, enginn sagt upp í Garðabæ, Kópavogi og á Akureyri

Rætt var við Láru V. Júlíusdóttur, sérfræðing í vinnurétti. Sagði hún að fara þyrfti eftir lögum og reglum um vinnustöðvun í kjaradeilum og hægt væri að sekta fyrir brot sem þetta. Það sé þó sjaldan gert.

Uppsagnir grunnskólakennara virðast að stærstum hluta vera bundnar við Seljaskóla og Dalsskóla í Reykjavík. Tuttugu og tveir kennarar hafa sagt upp störfum í Seljaskóla síðastliðinn mánuð, samkvæmt upplýsingum frá Magnúsi Þór Jónssyni, skólastjóra skólans. Á fimmtudaginn í síðustu viku greindi RÚV frá því að sex kennarar hefðu sagt upp störfum í Dalsskóla. Ekki fengust upplýsingar hjá skólanum um hvort uppsögnum hafi fjölgað eftir það.

Enginn kennari hefur sagt starfi sínu lausu á þessu tímabili í Garðabæ, Hafnarfirði, Kópavogi og á Akureyri.

Grunnskólakennarar um allt land lögðu niður störf klukkan hálf tvö í dag og héldu á samstöðufundi sem haldnir voru víða um landið. Samningafundur í kjaradeilu kennara hófst kl. 14.30 hjá ríkissáttasemjara. Fundinum lauk án niðurstöðu. 

Auglýsing

læk

Instagram