Seldi 600 kebab á aðfangadag

Um 600 manns keyptu sér kebab á veitingastaðnum Ali Baba við Lækjartorg á aðfangadag. Flestir voru ferðamenn en Íslendingar vildu líka fá kebab í jólamatinn. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.

Yaman Brikhan, eigandi veitingastaðarins Ali Baba, ákvað að hafa opið yfir öll jólin. Staðurinn var fullur bæði á aðfangadagskvöld og jóladag:

Það var alveg brjálað að gera allan aðfangadag, sérstaklega frá klukkan fjögur til sjö. Ég afgreiddi um það bil sex hundruð manns. Venjulega hef ég haft lokað frá klukkan fjögur á aðfangadag en það er svo mikið af ferðamönnum í bænum. Ég fæ mikið af símtölum frá hótelum um hvort það sé opið hjá mér og ákvað því að hafa opið.

Metfjöldi ferðamanna dvelur á Íslandi um jólin, eða um 60 þúsund manns, samkvæmt Fréttablaðinu. Þar kemur einnig fram að meiri eftirspurn sé eftir verslun og þjónustu um jólin og að langar biðraðir ferðamanna hafi myndast fyrir utan þá fáeinu staði í miðborginni sem höfðu opið á aðfangadagskvöld og jóladag.

Brikhan segist í Fréttablaðinu ekki hafa kallað út aukamannskap til að anna eftirspurninni.

„Við vorum þrjú að afgreiða þegar mest var og það gekk vel. Það voru ekki eingöngu ferðamenn sem komu til okkar í mat á aðfangadag, einhverjir Íslendingar vildu líka kebab í jólamatinn,“ segir hann.

Auglýsing

læk

Instagram