Sjö milljónir fylgjast með Heiðu Rún á BBC

Sjö milljónir sjónvarpsáhorfenda í Bretlandi fylgjast að jafnaði með þáttunum Poldark á BBC. Heiða Rún Sigurðardóttir fer með eitt af aðalhlutverkunum í þáttunum og hefur vakið talsverða athygli fyrir frammistöðu sína. Þetta kemur fram á vef London Evening Standard.

Í viðtali við blaðið segist Heiða Rún, sem kallar sig Heidi Reed ytra, ekki hafa haft hugmynd um hvaða áhrif hlutverkið gæti haft á feril hennar.

„Ég vissi ekki um gömlu þáttaröðina þegar ég fékk hlutverkið,“ segir hún og vísar í þætti sem sýndir voru á áttunda áratugnum. „Ég las handritið og það greip mig.“

Sjá einnig: Heiða Rún segir kynlífssenurnar hafa tilgang

Þættirnir gerast á 19. öld og fjalla um Ross Poldark, sem leikinn er af Aidan Turner. Hann snýr heim úr stríði og kemst að því að hann hefur verið úrskurðaður látinn og að unnusta hans, sem Heiða Rún leikur, sé trúlofuð frænda hans. Ástarmálin verða svo flóknari eftir því sem líður á þessa átta þátta seríu sem bretar virðast vera ansi spenntir fyrir.

Í staðinn fyrir að nýta frægðina sem Poldark hefur skapað og taka að sér hlutverk í einhverri stórmyndinni ætlar Heiða að snúa aftur á sviðið.

Hún leikur aðalhlutverkið Scarlet sem fjallar um unga konu sem verður fyrir barðinu á hefndarklámi. Heiða hefur tekið þátt í verkefninu frá upphafsstigum og segist hafa dregið sig úr baráttunni um stærri hlutverk til að sinna því.

„Þetta er mjög viðeigandi verkefni og fjallar um stelpu sem sér ekkert að því að vera opin og frjáls kynferðislega þangað til hún verður fórnarlamb einhvers konar hefndarkláms.“

Auglýsing

læk

Instagram