Snyrtivörum að andvirði 300 milljóna rænt af Jeffree Star

Bandaríska Youtube-stjarnan Jeffree Star sagði frá því í dag á Youtube að snyrtivörum sem voru tæplega 300 milljóna króna virði hefði verið rænt úr vöruhúsi fyrirtækis hans 16. mars síðastliðinn. Meðal þess sem var stolið voru vörur sem Star var að þróa og höfðu ekki verið gefnar út. Hluti þeirra hafði birst á samfélagsmiðlum og því ákvað Star að greina frá glæpnum. Þetta kom fram á vef BBC.

Í myndbandinu segir Star að hópur „fagmanna“ hafi brotist inn í vöruhúsið, sem er staðsett í Los Angeles í Bandaríkjunum og að lögreglan í borginni og alríkislögreglan séu að rannsaka málið.

Star segir að hann og lögreglan telji að vörunum hafi verið stolið til að selja þær á svörtum markaði.

Jeffree Star hefur notið vinsælda á internetinu árum saman og er með yfir 14 milljón áskrifenda á Youtube. Hann er einnig með sína eigin snyrtivörulínu og samkvæmt Forbes er hann einn launahæsti fegurðar- og lífsstílvloggari heims.

Fyrir um ári síðan var augnskugga að andvirði tæplega 536 milljóna króna rænt úr vöruhúsi Anastasia Beverly Hills í Los Angeles. Töluvert er um svartamarkaðsbrask með snyrtivörur, sem getur verið hættulegt neytendum, því óvandaðar og mögulega heilsuspillandi vörur geta komist í umferð.

Auglýsing

læk

Instagram