Svavar Knútur: Spotify ekki að eyðileggja plötusölu

Greiðslufyrirkomulag tónlistarveitunnar Spotify hefur verið í brennidepli eftir að Haraldur Leví Gunnarsson, útgefandi hjá Record Records, birti grein á Nútímanum þar sem hann ber tekjur af plötusölu saman við tekjur fyrir streymi á Spotify.

Þar segir hann meðal annars: „Þú þarft að hlusta 173 sinnum á plötuna svo að hljómsveitin fái sömu tekjur og ef þú ferð og kaupir geisladiskinn út í búð. Það er fáránlegt!“

Haraldur segir að fólk eigi ekki að venjast því að greiða 1.500 krónur á mánuði fyrir tónlistarveitu. „Það meikar engan sens, það er ódýrara en ein plata. Það er meira að segja ódýrara en heildsöluverð á einni plötu!“

Tónlistarmaðurinn Svavar Knútur hefur aðra sögu að segja en hann var í viðtali í Fréttatímanum í október:

„Umræðan er alltaf of neikvæð og oft kemur hún frá mönnum sem eiga aðdáendahóp sem hefur ekki tileinkað sér þessa nýjung. Spotify er ekki að eyðileggja plötusölu, hún bætir við ef eitthvað er,“ sagði hann.

Örskýring: Greiðslufyrirkomulag Spotify

Í viðtalinu kemur fram að Svavar Knútur kunni vel við fyrirkomulagið þó greiðslurnar frá Spotify hafi ekki náð Stefgjöldunum, sem fást meðal annars fyrir spilun í útvarpi. „Á þremur árum hefur Spotify margfaldað greiðslurnar til mín og þær vaxa jafnt og þétt,“ segir hann.

„Mín tónlist er mjög aðgengileg á netinu og margir sem bæði hlusta á og kaupa mína músík í gegnum netið. Ég hef verið að skoða streymið mjög mikið. Ein spilun í útvarpi eru náttúrlega mörg þúsund „streymi“ í raun, þar sem mörg þúsund manns eru með þetta í eyrunum á þeim tíma. Eitt streymi í Spotify er eitt par af eyrum að hlusta. En hlutfallslega held ég að Spotify borgi margfalt betur „per eyra“ sem heyrir, heldur en útvarp.

Svavar sagði þetta mjög jákvætt. „Töluvert jákvæðara en Torrent, þar sem bara er verið að stela. Spotify borgar 70% af sinni innkomu til listamannanna, sem er nú töluvert meira en allir smásalar geta gert,“ sagði hann.

Viðtalið við Svavar Knút má finna hér.

Auglýsing

læk

Instagram