Takk fyrir okkur! strákarnir okkar töpuðu fyrir Frökkum en geta borið höfuðið hátt

Ísland lauk keppni á EM í fótbolta rétt í þessu eftir leik gegn Frökkum. Strákarnir geta svo sannarlega borið höfuðið hátt eftir stórkostlega frammistöðu á mótinu og Nútíminn þakkar fyrir sig.

Frakkar voru einfaldlega of sterkir og unnu leikinn 5-2. Kolbeinn Sigþórsson og Birkir Bjarnason skoruðu mörk Íslands. Nútíminn tók saman leiki Íslands á mótinu og mörkin.

Ísland hóf leik á mótinu miðvikudaginn 14. júní og mætti Portúgal, sem var talið sigurstranglegasta lið riðilsins. Nani skoraði fyrsta mark leiksins á 31. mínútu og staðan í hálfleik var 1-0 fyrir Portúgal.

Það ætlaði svo allt um koll að keyra þegar Birkir Bjarnason jafnaði leikinn á 50. mínútu eftir laglega sendingu frá Jóhanni Berg Guðmundssyni.

Eftir taugatrekkjandi lokamínútur, þar sem Cristiano Ronaldo fékk tvær tilraunir til að skora sigurmark úr aukaspyrnu, lauk leiknum með jafntefli. Íslendingar fögnuðu gríðarlega í leikslok og fræg ummæli Ronaldo, um meint smáþjóðahugarfar strákanna, vöktu mikla athygli um allan heim.

Næsti leikur var á móti Ungverjum og Gylfi Sigurðsson komst á blað á 39. mínútu með mark úr vítaspyrnu.

Staðan var 1-0 fyrir Íslandi þangað til á 88. mínútu þegar Birkir Már Sævarsson skoraði sjálfsmark eftir slæm varnarmistök. Mikið svekkelsi eftir að hafa leitt leikinn í tæpar 50 mínútur.

Það var þó ljóst að Íslandi dugði jafntefli gegn Austurríki í síðasta leik riðilsins miðvikudaginn 22. júní. Strákarnir mættu ákveðnir til leiks og Jón Daði Böðvarsson kom Íslandi yfir á 18. mínútu eftir baneitrað innkast frá fyrirliðanum Aroni Einari Gunnarssyni.

Austurríkismenn jöfnuðu svo leikinn á 60. mínútu og staðan var jöfn fram á 94. mínútu þegar Theódór Elmar Bjarnason fékk boltann og rauk af stað í skyndisókn. Birkir Bjarnason og Arnór Ingvi Traustason fylgdu fast á eftir og Theódór kom boltanum fyrir markið þar sem Arnór Ingvi kom honum í netið.

Frábær 2-1 sigur staðreynd og lýsing Gumma Ben á markinu vakti heimsathygli. Á meðal þeirra sem fjölluðu um Gumma voru Stephen Colbert, einn vinsælasti spjallþáttastjórnandi Bandaríkjanna.

Hann fjallaði svo aftur um Ísland á EM á dögunum eftir stórkostlegan sigur á Englandi í 16 liða úrslitum keppninnar. Wayne Rooney kom Englandi yfir á fjórðu mínútu eftir að Hannes Þór Halldórsson braut klaufalega á Raheem Sterling í teignum.

Ragnar Sigurðsson jafnaði svo leikinn aðeins tveimur mínútum síðar eftir annað baneitrað innkast frá Aroni Einar sem hafnaði á kollinum á Kára Árnasyni sem kom boltanum fyrir. Ragnar kláraði svo dæmið.

Kolbeinn Sigþórsson komst svo á blað eftir fyrsta skotið sitt á markið í keppninni og kom Íslandi yfir. Englendingar náðu ekki að jafna leikinn og ótrúlegur sigur var staðreynd.

Ísland mætti svo Frakklandi í París í átta liða úrslitum. Kolbeinn Sigþórsson skoraði fyrsta mark Íslands í seinni hálfleik.

Birkir Bjarnason bætti svo öðru marki við skömmu eftir að Eiður Smári Guðjohnsen kom inn á fyrir Kolbein Sigþórsson.

Fjölmiðlar um allan heim hafa fjallað um þetta ótrúlega ævintýri og það verður gaman að fylgjast með hvað strákarnir gera næst. Frammistaða þeirra hefur vakið mikla athygli og ljóst er að einhverjir eiga eftir að skipta um lið á næstunni.

Útvarpsmaðurinn Máni Pétursson hvatti fólk til að fylla Twitter af fallegum skilaboðum. Við tökum undir það.

Auglýsing

læk

Instagram