Tanja Ýr og María tengja áhrifafólk á samfélagsmiðlum við fyrirtæki

Athafnakonan Tanja Ýr Ástþórsdóttir segir að framtíð auglýsinga og markaðssetningar sé á samfélagsmiðlum. Hún og María Hólmgrímsdóttir hafa stofnað umboðsskrifstofuna Eylenda sem tengir saman áhrifafólk á samfélagsmiðlum og fyrirtæki.

Tanja og María vilja hjálpa fyrirtækjum að finna rétta fólkið til að markaðssetja vörur ásamt því að finna réttu fyrirtækin fyrir bloggara og fólk á samfélagsmiðlum sem þær hafa á sínum snærum. Fyrirtæki nýta í stöðugt meira mæli krafta samfélagsmiðla og hafa til dæmis framleitt efni í samstarfi við þekkta snappara.

Tanja Ýr segir í samtali við Nútímann að hugmyndin að Eylenda hafi orðið til eftir að hún og María höfðu upplifað vandamál sem fyrirtækjaeigendur en Tanja hafði einnig rekið sig á ýmis vandamál sem bloggari. „Áhrifafólk á samfélagsmiðlum var ekki að fá greitt fyrir það sem það var að gera,“ segir hún.

Þá hafa fyrirtæki oft lent í erfiðleikum með að finna réttan markhóp fyrir þá vöru og eða þjónustu sem þau vilja koma á framfæri. Með Eylenda vildum við hjálpa báðum aðilum í þessari vinnu.

Tanja Ýr segir frábært að taka þátt í þeirri þróun sem er að verða á auglýsingum. Hún segir að umboðskrifstofa eins og Eylenda sé framtíðin í auglýsingum og markaðssetningu.

„Ég tel að persónuleg umfjöllun sem fólk kýs að horfa á eða lesa um sé mun áhrifameiri og traustvekjandi en aðrar gerðir auglýsinga. Bloggarinn er búinn að búa sér til fylgjendahóp og öðlast traust hans,“ segir Tanja.

Tanja Ýr segir að engin skilyrði séu fyrir því að geta sótt um að vera hluti af Eylenda. Hún segir þó að það sé best að vinna með fólki sem hafi raunverulegan metnað og vilja til að ná langt á þessu sviði. „Við erum komin með flottan hóp af fólki og síðan við byrjuðum erum við búin að fá fjölda umsókna,“ segir hún.

Tanja Ýr segir hlutina vera breytast hratt í heimi samfélagsmiðla og að þær vilji þróa Eylenda í takt við breytingarnar „Við erum að sjá miklar breytingar á auglýsingum og markaðsetningu. Samfélagsmiðlar og áhrifafólk inni á þeim eru alltaf að auka áhrif sín á meðal fylgjenda sinna.“

Tanja segir að það hafi tekið langan tíma að finna nafn á fyrirtækið en að þær hafi endað á að velja fyrstu hugmyndina.

„Er það ekki alltaf þannig, fer maður ekki alltaf á það sem maður byrjaði á? Okkur fannst nafnið Eylenda vera grípandi og sterkt. Það hefur t.d verið notað sem orð yfir Ísland. Okkur fannst það eiga vel við þar sem við erum stór hópur áhrifafólks á samfélagsmiðlum á Íslandi.“

Auglýsing

læk

Instagram