Tannlæknastofa kynnt sem sumardvalarstaður

„Bjart nánast alla daga ársins“, „meðalhiti 25°C“ og „stutt í golfvelli“ eru setningar sem maður tengir helst við ljúft sumarfrí á fjarlægri strönd. Þetta er hins vegar tekið af nýjum vef tannlæknastofu Oddgeirs sem ber titilinn Bora Bora.

Á vefnum blasir við mynd frá suðrænum slóðum og undir birtist texti þar sem kemur fram að Bora Bora sé tilvalinn áfangastaður fyrir alla fjölskylduna. Tannlæknirinn Oddgeir Gylfason segir að hugmyndin hafi verið að setja upp heimasíðu með engum myndum af tönnum.

„Ég vildi sýna það sem við vorum að gera án þess að vera með tannamyndir,“ segir Oddgeir. Hann leitaði til hönnunarstofunnar Blokkarinnar sem vann verkefnið með honum og kom einnig með titilinn Bora Bora, sem Oddgeir er gríðarlega ánægður með.

„Þetta er auðvitað tvíþætt. Maður hugsar um eyjuna og svo að bora,“ segir hann léttur.

Það mætti segja að ætlunarverkið hafi tekist en á síðunni er ekki að finna eina einustu mynd sem tengjast tannlækningum. Myndirnar af tannlæknunum sjálfum sýna þá meira að segja í frístundum.

„Mér fannst algjör snilld að nota þetta sem þema — ég vildi bara hafa þetta skemmtilegt og létt,“ segir hann.

„Það finnst engum gaman að fara til tannlæknis. Það má hafa smá gleði í þessu líka, það er nógu mikið af þessu staðlaða. Það voru allir með þetta eins.“

Smelltu hér til að skoða vefinn.

Auglýsing

læk

Instagram