Útilokar ekki endurkomu sítrónu-Svalans eftir þrýsting frá 1.600 þyrstum Íslendingum

Nokkur ár eru síðan Svali með sítrónubragði var tekinnaf markaði við litla hrifningu aðdáenda drykksins súra. Einn þeirra, Oddur Mar Árnason, hefur enn ekki sætt sig við brotthvarfið og ákvað að fara af stað með undirskriftarsöfnun.

Oddur er greinilega ekki sá eini sem saknar sítrónu-Svala því þegar þessi frétt er skrifuð hafa rúmlega 1.600 manns skrifað undir áskorun til Coca Cola European Partners Ísland (áður Vífilfell) og krefjast þess að fá hann aftur. Stefán Magnússon markaðsstjóri hjá CCEP útilokar ekki endurkomu sítrónu-Svala.

Krafa þeirra sem skrifa undir er einföld: Þau vilja aðgerðir. „Nú hefur komið ný kynslóð af börnum sem hafa aldrei fengið að smakka þennan gífurlega góða drykk og munu aldrei fá að smakka nema eitthvað sé gert í því,“ segir í yfirskrift kröfunnar.

Forsprakkinn Oddur Mar segist í samtali við Nútímann lengi hafa saknað sítrónu-Svalans. „En að heyra hversu margir aðrir söknuðu hans líka hvatti mig til að gera eitthvað í málinu. Undirskriftarlistinn var lausnin,“ segir hann.

Oddur segir að söfnun undirskrifta hafi gengið vonum framar og markmiðið sé skýrt. „Við stefnum á að safna 3.000 undirskriftum,“ segir hann.

Og við viljum fá sítrónu-Svalann aftur svo að komandi kynslóðir geti notið hans rétt eins og eldri kynslóðir hafa gert.

Stefán Magnússon, markaðsstjóri hjá CCEP, útilokar ekki endurkomu sítrónu-Svala í samtali við Nútímann. „Við erum hrærð yfir áhuganum sem neytendur eru að sýna vörumerkinu og erum að leita lausna til að bregðast við þessu. Vonandi koma góðar fréttir fyrir aðdáendur sítrónu-Svala fyrir næsta sumar.“
Auglýsing

læk

Instagram