https://www.xxzza1.com

Útvarpsstjóri Útvarps Sögu vill láta innkalla öll eintök tímaritsins MAN

Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu, sendi Björk Eiðsdóttur, ritstjóra MAN Magasíns, hraðskeyti í dag þar sem þess er krafist að nýjasta tölublað MAN verði innkallað vegna ólöglegrar birtingar á efni í eigu Útvarps Sögu. Þetta kemur fram á vef Stundarinnar.

Björk Eiðsdóttir, ritstjóri MAN, hyggst ekki verða við kröfum Arnþrúðar.

Í bréfinu, sem Björk birtir á Facebook-síðu sinni, kemur fram að um bæði myndir og texta sé að ræða og að birting á efninu sé skýlaust brot á lögum. Fyrirsögn greinarinnar er „(G)óðir hlustendur“ en þar er meðal annars vitnað til nokkurra ummæla frá innhringjendum Útvarps Sögu.

Í samtali við Stundina segir Björk að hún hafi fengið myndirnar af opinberri Facebook-síðu Útvarps Sögu.

Þetta efni býr sig til sjálft. Um er að ræða beinar tilvitnanir í þennan innhringitíma og þrjár myndir af Facebook. Þetta er allt opinbert efni. Innhringitíma þeirra er bæði útvarpað og hægt er að hlusta á hann á netinu líka.

Björk segir á vef Stundarinnar að í bréfinu sé ekki kallað á eftir neinum öðrum viðbrögðum en að tímaritið verði innkallað.

„Við erum ekki beðin um svör og þá er ekki vísað í neina lagabókstafi. Þannig ég held ég muni ekki bregðast við þessu með neinum hætti.“

Auglýsing

læk

Instagram