Viðar Guðjohnsen hefur reynt að vekja fólk til umhugsunar um heilbrigðan lífsstíl í áratugi

Viðar Guðjohnsen, leigusali og athafnamaður, hefur í áratugi reynt að vekja fólk til umhugsunar um heilbrigðan lífsstíl. Viðtal við Viðar í útvarpsþættinum Harmageddon á X977 í gær hefur vakið gríðarlega athygli en það hófst á því að Viðar lét Frosta og Mána heyra það fyrir að vera með undirhöku.

Viðar vill leiða Sjálfstæðisflokkinn í baráttunni um borgina en leiðtogakjör fer fram 27. janúar. Eyþór Arnalds, Áslaug Friðriksdóttir, Kjartan Magnússon og Vilhjálmur Bjarnason​ bjóða sig einnig fram en sveitarstjórnarkosningarnar fara fram 26. maí.

Sjá einnig: Frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins lét Frosta og Mána heyra það í beinni fyrir að vera með undirhöku

Í viðtalinu í Harmageddon sagði Viðar að Kári Stefánsson væri „eins og Drakúla“ í sjónvarpinu og væri að segja að það þurfi að ausa fé í heilbrigðiskerfið. „Ausa! Komið með meira! En lausnin er ekki að finna einhver ný lyf fyrir undirhökum. Heldur það, að bara breyta lífsstílnum. Bæta lífsstílinn. Hugsa og taka ábyrgð. Ekki að búa til stofnanir og einhver kerfi og fundarhöld um hvernig á að finna einhver lyf til að leysa undirhökuvandamál. Eða of breiðar mjaðmir — eða klessufeitt fólk.“

Viðar hefur augljóslega barist lengi fyrir því að fólk stundi heilbrigt líferni en hann stofnaði með bróður sínum Orkubót, sem var fyrsta líkamsræktarstöð sinnar tegundar á Íslandi í byrjun níunda áratug síðustu aldar.

Í viðtali sem birtist í Vikunni í lok janúar árið 1981 sagði Viðar að það nægi ekki að líta út fyrir að vera grannur. „Sumt fólk virðist grannt af öllu útliti en er í raun spikfeitt. Ef maður tekur á vöðvum kemur í ljós að þeir eru rýrir en þykkt spiklag utan á.“

Þá sagði hann að þeir sem vilji megra sig yrðu að fara rétt að. „Sjaldan duga matarkúrar einir sér. Maður þarf að brenna aukafitunni og þá er langbest að hreyfa sig, stunda einhverjar líkamsæfingar.“

Árið 1981 þótti greinilega nokkuð sérstakt að konur lyftu lóðum en Viðar sá ekkert athugavert við það. „Margar konur halda að þær fái mikla vöðva ef þær stunda lyftingar. Það er hinn mesti misskilningur, konur hafa aðra hormónastarfsemi en karlar og ná því ekki að byggja upp vöðva með sama móti,“ sagði Viðar í viðtalinu í Vikunni.

„Aftur á móti styrkja konur vöðvana með lyftingum og þær verða spengilegri. Hægt er að breyta línunum með þjálfun. ég veit til dæmis að Bo Derek, sem leikur í kvikmyndinni 10 heldur forminu með lyftingum.“

Í lok viðtalsins kjarnar ungur Viðar lífsspekina sem virðist hafa fylgt honum alla tíð: „Öllum er nauðsyn að halda skrokknum í formi. Menn eiga aldrei að hætta að hreyfa sig, aldrei að hætta líkamsæfingum.“

Auglýsing

læk

Instagram