Örskýring: Af hverju mátti RÚV ekki nota þjóðsönginn?

Um hvað snýst málið?

Hvort að RÚV hafi brotið lög um þjóðsöng Íslendinga þegar þjóðþekktir Íslendingar lásu upp brot úr honum í kynningu fyrir HM í Rússlandi sem sýnt var á stöðinni fyrr í sumar. Samkvæmt lögunum er óheimilt að nota sönginn í auglýsingaskyni. Lögin kveða einnig á um að þjóðsönginn megi ekki nota í annarri mynd en hinni upprunalegu.

Hvað er búið að gerast?

Í svari Rík­is­út­varps­ins segir að myndskeiðið hafi verið dagskrárkynning en ekki auglýsing og að miðað hafi verið við ljóð Matthíasar Jochumssonar en ekki íslenska þjóðsönginn. Málið hefur verið til skoðunar hjá Forsætisráðuneytinu.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, hefur sagt sig frá málinu. Katrín les eina línu í kynningunni og segir í samtali við fréttastofu RÚV að hún hafi viljað tryggja að öll málsmeðferð yrði hafin yfir allan vafa.

Hvað gerist næst?

Brot gegn ákvæðum lag­anna varðar sekt­um eða fang­elsi allt að tveim­ur árum. Þar er gert ráð fyrir því að forsætisráðherra skeri úr um rétta notkun þjóðsöngsins. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, mun fara með málið.

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, stefnir á að leggja fram frumvarp á Alþingi í haust til breytingar á lögunum. Hann telur lögin úrelt og að þau skerði jafnvel tjáningarfrelsi. Katrín Jakobsdóttir telur einnig að rétt sé að kanna hvort endurskoða beri lögin.

Örskýringar eru 200 orða fréttaskýringar Nútímans um mál sem mikið er fjallað um. Sendu okkur póst ef þú ert með hugmynd að örskýringu.

Auglýsing

læk

Instagram