Örskýring: Hryðjuverk við þinghúsið í London. Hvað vitum við um árásina?

Um hvað snýst málið?

Fjórir létu lífið og fjöldi fólks slasaðist í hryðjuverkaárás sem gerð var nálægt þinghúsinu í London eftir hádegi í gær, miðvikudaginn 22. mars.

Hvað er búið að gerast?

Karlmaður ók bíl eftir Westminster-brúnni, keyrði á gangandi vegfarendur og myrti þannig að minnsta kosti tvo ásamt því að særa fjölda annarra, þar af sjö alvarlega.

Hann ók bílnum því næst á handrið við þinghúsið, fór út úr honum og stakk lögreglumann til bana. Öryggisvörður skaut manninn til bana.

Lögregla telur sig vita hver maðurinn er og hann hafi verið einn að verki. Enn bendir ekkert til þess að hann hafi verið hluti af hryðjuverkasamtökum. Þó er talið að hann hafi verið undir áhrifum frá slíkum samtökum.

Sjö þeirra sem slösuðust eru enn á sjúkrahúsi og er ástand þeirra alvarlegt.

Sjö manns hafa verið handteknir í London og Birmingham í tengslum við árásina.

Hvað gerist næst?

Lögregla rannsakar málið og leitar að þeim sem gætu mögulega hafa aðstoðað manninn við árásina.

Lögregla hefur beðið blaðamenn að birta ekki nafn mannsins að svo stöddu.

Örskýringar eru 200 orða fréttaskýringar Nútímans um mál sem mikið er fjallað um. Sendu okkur póst ef þú ert með hugmynd að örskýringu.

Auglýsing

læk

Instagram