Örskýring um þyngdarbylgjur, hvað eru þær? Hvaðan koma þær? Hvernig fundust þær?

Um hvað snýst málið?

Vísindamenn hafa í fyrsta sinn mælt þyngdarbylgjur. Þar með hefur 100 ára gömul spá Alberts Einsteins um tilvist þeirra verið staðfest. Með uppgötvuninni er nýtt svið í vísindum orðið til og nýr gluggi hefur opnast út í alheiminn. Hingað til höfum við lært allt sem við vitum út frá því sem við sjáum með sjónaukum. Nú getum við hlustað á alheiminn líka.

Hvað eru þyngdarbylgjur?

Samkvæmt almennu afstæðiskenningunni er tími og rúm (geimurinn) einn og sami hluturinn, kallaður tímarúm. Hægt er að ímynda sér tímarúmið sem strekt en sveigjanlegt lak. Þungir hlutir eins og stjörnur og svarthol sveigja tímarúmið og gára það eins og gárur á vatni.

Því þyngri sem hluturinn er, því kröftugri verða gárurnar. Gárurnar eða bylgjurnar strekkja á tímarúminu og þjappa því og öllu sem verður á vegi þeirra saman eins og stressbolta sem er kreistur.

Hvaðan komu þyngdarbylgjurnar og hvernig fundust þær?

Þyngdarbylgjurnar komu frá tveimur svartholum sem runnu saman í eitt fyrir 1,3 milljörðum ára. Við árekstur svartholanna losnaði orka sem samsvarar orku þriggja sóla. Orkan losnaði sem þyngdarbylgjur sem gáruðu tímarúmið.

Í sínum hvorum enda Bandaríkjanna eru tvær risavaxnar tilraunastöðvar, LIGO, sem námu þyngdarbylgjurnar þegar þær bárust í gegnum Jörðina og aflöguðu hana örlítið.

Þyngdarbylgjur koma frá fyrirbærum sem við sjáum ekki beint, eins og svarthol. Þyngdarbylgjur veita okkur því beina leið til að rannsaka þau en það höfum við ekki getað hingað til.

Örskýringar eru 200 orða fréttaskýringar Nútímans um mál sem mikið er fjallað um. Þetta er svokölluð gestaörskýring frá Sævari Helga Bragasyni, ritstjóra Stjörnufræðivefsins.

Auglýsing

læk

Instagram