Er barnið mitt of feitt? Hvað á ég að gera við hugsanir mínar og athugasemdir annarra um útlit barnsins míns?

Við þekkjum þessar fréttir. Að x% íslenskra barna séu samkvæmt nýjustu rannsóknum í ofþyngd. Að íslensk börn séu of þung, þau hreyfi sig of lítið og innbyrði allt of mikinn sykur. Til hliðar við þennan fréttaflutning er svo óbeinn áróður þess fallega og fullkomna í ýmsum myndum – tískuiðnaðurinn, tónlistarmyndböndin, íþróttaöfgarnar og bara hin allt-um-lykjandi skilaboð nútímans um að jújú allt sé frábært en á sama tíma bara alls ekki nógu gott.

En hvers er að hafa áhyggjur af hverju og hvers er að viðra þær áhyggjur? Foreldrar eru í eðli sínu með áhyggjur af flestu og ofþyngd barnanna er mögulega þar á meðal. Það er alið á því að ofþyngd (sama hvaða nafni hún nefnist, eða hvaða skilgreiningu hún ber) sé ógn við heilsuna, og við vitum að fólk í ofþyngd sætir fordómum, og upplifir stríðni og útskúfun. Við foreldrar berum ábyrgð á börnunum okkar og velferð þeirra en málin flækjast þegar þau snúast um líkama, heilsu og sjálfsmynd þeirra.

Svo hvað á ég að gera við hugsanir eins og:
„Er dóttir mín að fitna?“
„Er þetta barnafita eða verður sonur minn alltaf með þessa bumbu?“
„Það er ofþyngd í ættinni, á ég að skrá barnið mitt í íþróttir strax?“
„Ekki gefa neinum ís, fyrst hún ætti ekki að borða svoleiðis.“
„Er hann orðinn feitasti strákurinn í bekknum/skólanum/hverfinu?“
„Á ég að vera að gera eitthvað?“

Getum við talað um hvernig fordómar og/eða dómharka samfélagsins bergmálar í höfðum okkar foreldra þó við á okkar upplýsta máta reynum að bægja þeim frá? Ég ætla að byrja á því að gangast við svona hugsunum. Ég óska þess að börnin mín verði í kjörþyngd. Auðvitað vil ég að þau verði heilbrigð og hamingjusöm en það væri frábært ef þau þyrftu ekki að díla við offitu … eða skakkar tennur, óþol af einhverri sort eða yfirgengilegan kvíða … raunar óska ég þess bara að börnin mín og öll önnur börn fái bara að vera börn. Mínus allt vesen. Að þau fái að sigla auðveldlega í gegnum þetta.

Línan milli okkar og barnanna er samt svo óskýr. Kannski þrái ég bara að ég fá að sigla auðveldlega í gegnum þetta. Að ég fái ekki augnatillitin í ísbúðinni vegna þess að ég er mamma „feita stráksins“.

Vá, hvað það er undarlega erfitt að skrifa um þetta.
Af hverju ætli það sé?

Hvernig ræðir maður á uppbyggjandi hátt við velmeinandi, ástríka vinkonu (sem mokar jarðaberjasultu ofan á vöffluna handa dóttur minni á meðan hún býsnast yfir offitu-faralds-fréttum) um framtíð barnanna okkar og heilsu þeirra? Það eru allir með skoðun. Hvernig gerðist það að útlínur eins urðu umtals- og aðhlátursefni annars? Eða svona sjálfsagt áhyggjuefni?

Ég er komin með þetta út í móa.

Það mikilvægasta er að börn alist upp í umhverfi sem viðurkennir þau, eins og þau eru, og hjálpar þeim að þróa með sér jákvæða líkamsmynd. Og þar erum við lykilfólkið, foreldrarnir. Það hvernig við tölum, um aðra og okkur sjálf, hvernig við komum fram við okkar eigin líkama. Við vitum öll að barnseyru eru næm, gætum tungu okkar. Það hjálpar engu barni að alast upp með þá hugsun að það sé eitthvað að því eða einhverjum öðrum nákomnum þeim. Virðum fjölbreytileikann, í orði og á borði. Fátt er skaðlegra en að vera dæmdur á neikvæðan hátt af umhverfi sínu, það hjálpar okkur í það minnsta ekki við að vera heilbrigð og hraust.

Við foreldrar berum ekki ábyrgð á útlínum barnanna okkar, við berðum ábyrgð á heilsu þeirra. Það ber enginn ábyrgð á útlínum neins, ekki einu sinni sínum eigin. Það er eins og að þurfa að ábyrgjast eigin freknur eða háralit.

Það er okkar að taka góðar ákvarðanir fyrir börnin, og vera fyrirmyndir þeirra. Getum við í fyrsta lagi sammælst um að vera ekkert að pæla ekki í útlínum annarra, barna né fullorðinna? Tökum bara útlínur og umræðuna um þyngd fólks af dagskrá, nema það sé beinlínis lýðheilsu- eða heilbrigðismál eða vinnan okkar að pæla í slíku. Og hættum að nota orð eins og „holdafar“ (sem er NB ljótasta orð sem finnst í íslensku máli).

Það er til frábær vefsíða um líkamsvirðingu barna. Þar skrifar Sigrún Daníelsdóttir sálfræðingur og formaður Samtaka um líkamsvirðingu um efnið af innsæi og reynslu. Ég mæli eindregið með því að allir foreldrar kynni sér  síðuna hennar, ekki síst kaflann um væntumþykju. Þar skrifar Sigrún m.a.:„Ef barnið lýsir áhyggjum af líkamsvexti sínum er mikilvægt að hlusta. Reyndu að komast að því hvað býr þarna að baki. Varð barnið fyrir neikvæðri reynslu nýlega? Hefur það séð eða heyrt eitthvað sem fékk það til að skammast sín fyrir líkama sinn? Sýndu stuðning og ekki líta svo á að holdafari barnsins sé um að kenna. Ef barnið hefur orðið fyrir höfnun vegna þess hvernig það lítur út þá er vandamálið í umhverfinu, ekki hjá barninu.“

Við vitum hvað börnin okkar þurfa. Kröfurnar á okkur foreldrana eru hins vegar óljósari. En við höfum val um hverjum þeirra við mætum og hvernig.


Nútímaforeldrar eru líka á Facebook
.
Lækaðu ef þér líkar síðan okkar og þá missir þú ekki af neinu.

Auglýsing

læk

Instagram