Nennið’i að taka þetta með ykkur, þið þarna jólasveinar …?

Takk fyrir gjafmildi ykkar og þá gleði sem þið hafið fært heimili mínu í gegnum árin kæru jólasveinar. Í ljósi þess að þið hafið komið með ómælt magn af dóti hingað, væruð þið þá til í að kippa svolitlu með ykkur heim? Hér eru nokkrir hlutir sem ég er alveg hætt að nota, eða hætt að fíla og myndi eiginlega ekki sakna hætis hót … fyrst þið eruð allir á heimleið núna.

#1 Stekkjastaur

Værir þú kannski til í að taka með þér allt leikskólaföndrið sem barnið ferjar hingað heim í hverri viku? Það eru einhverjir sextán sekkir af föndri í geymslunni – aðallega pappír með tilfallandi skreytingum héðan og þaðan, eitthvað af glimmer og glitrandi pasta og þvíumlíku. Ég get treyst á stöðugt streymi af föndri á nýju ári og þarf að losa plássið, skiljúmí …

#2 Giljagaur

Ef þú værir til í að taka smáköku- og súkkulaðisamviskubitið þá væri það frábært. Super alveg.

#3 Stúfur

Ég veit þú ert stuttur í báða en værir þú til í að taka allt Frozen-dót sem finnst í 50 m radíus frá heimilinu? Þá meina ég ALLT sem er fellur undir kríteríuna a) er með snjókornum … b) er í sægrænbláum lit … eða c) með stöfunum ELSA einhvers staðar. TAKK vinur!

#4 Þvörusleikir

Hey, þú – þú hefur alltaf verið uppáhaldið mitt. Ég stóla og skora á þig að taka lúsina, njálginn og allar helstu umgangspestir sem herja á okkur með þér heim í hellinn. Það þrífst ekkert þarna fyrir ofan snjólínu – er það nokkuð?

#5 Pottaskefill

Þú ert svo nákvæmur! Ert þú til í að taka öll óhreinindi sem lúra í hornum á herbergjum, innréttingum og hillum? Fyrir þá sem aðhyllast skammdegisþrif þá verður alltaf svolítið eftir. Það er af nógu að taka!

#6 Askasleikir

Er þú til í að taka allan mat sem er við það að renna út hérna en ég a) kann ekki að elda úr b) bara get ekki borðað? Er ég ekki að lesa þig rétt? Þú ert svag fyrir öllu matarkyns ikk?

#7 Hurðaskellir

Þú þekkir þetta. Taktu endilega með þér öll leikföng sem gefa frá sér hið minnsta píp. Plís.

#8 Skyrgámur

Ég veit ekki alveg með þig Skyrgámur. Ertu á mála hjá MS? Ert þú kannski til í að taka með þér allar unnar sykraðar mjólkurvörur?

#9 Bjúgnakrækir

Og félagi Bjúgnakrækir. Þú gætir verið sponsaður að SS by now. Værir þú þá til í að taka með þér allar unnar kjötvörur?

#10 Gluggagægir

Ert þú ekki mest krípi af þessum jólasveinum? Þú fylgist væntanlega mjög vel með? Værir þú kannski til í að taka allan fatnað sem enginn passar í lengur?

#11 Gáttaþefur

Ef það lyktar illa mátt þú eiga það. Punktur. Ég mun ekki spyrja og ég mun ekki sakna neins.

#12 Ketkrókur

Þú mátt taka baðvogina. Ég þarf hana ekki og ekki sjálfsvirðingin mín heldur. Be gone! Spegilinn þarf ég ekki heldur fyrr en í fyrsta lagi í mars, apríl svo þú mátt kippa honum með líka ef það er pláss.

#13 Kertasníkir

Þú tekur svo bara rest er það ekki? Þú mátt sannarlega taka öll kerti sem finnast óbrunnin eða kvartbrunnin og allan eldsmat sem þú finnur. Þú mátt gjarnan taka allan endurvinnanlegan pappír, pappa og plast (það er svo mikið að gera í Sorpu) og auðvitað dósir og flöskur líka. Öll leikföng sem hafa staðið óhreyfð í meira en 8 vikur og alla skó sem enginn hefur dansað í á árinu, eggjasuðuvélina, lokin af plastboxunum sem passa ekki á neitt og alla ósamstæða vettlinga og sokka. Þá held ég að þetta sé komið …

Eða kannski ekki. Væruð þið kannski til í að taka mig bara með líka?

Auglýsing

læk

Instagram