„Erum erum að verða komin?“ Hér eru 6 leikir fyrir fjölskyldur á ferðinni

Allir kannast við óeirð og ólund í aftursætum og biðsölum þegar smáfólk (og stærra) þarf að stytta sér stundir. Þá er frábært að hafa nokkra leiki á takteinunum til að hjálpa fólki að halda í góða skapið. Til að bæta við flóruna mælum við með þessum:

Því miður / sem betur fer

Æfing í að hugsa jákvætt. Þátttakendur skiptast á að finna upp á neikvæðum staðreyndum og svara þeim á jákvæðan hátt – hér er það hugmyndaflugið sem gildir, því kjánalegri fullyrðingar þeim mun skemmtilegri stemmning. Og vitanlega þurfa fullyrðingarnar og staðreyndirnar alls ekkert að vera sannar.
Dæmi:

 • Því miður ætlar gíraffi að éta bílinn okkar … Sem betur fer getum við húkkað okkur far með sebrahestunum
 • Því miður er ekkert klósett fyrr en eftir 350 kílómetra … Sem betur fer get ég pissað í stígvélið mitt.
 • Því miður er eitt auka auga að vaxa út um hnakkann á mér … Sem betur fer ertu með góða sjón – það væri svo erfitt að festa gleraugun þar.

Út í búð

Stálpaðir krakkar geta leikið tilbrigði við þennan stafrófsleik. Einn byrjar og segir: „ég fór út í búð og keypti … ananas“ (eða eitthvað sem byrjar á a), þá tekur næsti við og endurtekur það sama og bætir einum við: „ég fór út í búð og keypti ananas og beyglu …“ og svo koll af kolli:

 • „Ég fór út í búð og keypti ananas, beyglu, colgate tannkrem, dósaopnara og…“

Þið eruð búin að ná þessu. Semja þarf um fyrirfram hvaða stöfum er sleppt, „ð“ og „z“ eru til dæmis frekar erfiðir. Ef einhverjum fatast flugið þarf að byrja upp á nýtt en það er ekki nauðsynlegt að nefna alltaf það sama fyrir hvern staf þegar romsan er endurtekin.

Kaupstaðir og krummaskuð

Annar hnyttinn stafrófsleikur er spunnin út frá bæjarheitum. Sá sem byrjar gefur upp einhvern stað og spyr svo næsta hvað fáist keypti þar. Sá sem svarar verður að nefna þrjú samsett orð sem byrja á fyrsta stafnum í bæjarheitinu. Dæmi:

 • Ég frétti að þú værir úr Borgarnesi. Hvað fær maður þar?
  Nú maður fær til dæmis bingó-kúlur, buxna-pressu og banana-splitt.
 • Nú er ég ættuð frá Siglufirði. Veistu hvað maður getur fengið sér að borða þar?
  Á Siglufirði borðar maður síldar-paté, sauðnauts-pestó og suðu-súkkulaði.

Svona heldur leikurinn áfram þangað til fólk gefst upp eða klárar stafrófið.

B-b-bíladans

Við höfum öll gott af því að dansa oftar. Ákveddu af hvaða tilefni á að dansa, það gæti verið eitthvað mjög random eins og alltaf þegar þið sjáið hesta, farið yfir brú eða einhver geispar. Svo þarf bara að hafa tilbúið hresst lag á fóninn og dansa eins og Friðrik Dór segir í svona 30-50 sekúndur. Þetta gerir kraftaverk fyrir móralinn í hópnum.

Ertu kannski … algjört rassgat?

Hresst tilbrigði við hinn klassíska „Hver er maðurinn?“. Reglur í þessum leik er auðvelt að aðlaga að öllum aldri. Sá sem er’ann velur sér dýr/manneskju/fyrirbæri sem hann „er“ og svo skiptast þátttakendur á að spyrja já/nei spurningar sem byrjar á: „Ertu kannski …“ en skeyta fyrir aftan einhverri fyndinni lýsingu eða staðhæfingu með eigin húmor. Dæmi

 • Nú er ég hann. Ég er eitthvað dýr (dýrið er mús í þessu dæmi).
  Einhver spyr: Ertu kannski lítið dýr, rúsínurassinn minn?
 •  Já – ég er frekar lítið dýr
  Annar spyr: Ertu kannski dýr sem býr á Íslandi, þú þarna engill í mannsmynd?
 • Já, hvernig vissirðu. Ég er lítið dýr sem býr á Íslandi og er með skott.
  Spyrill: Ertu kannski kisa, vina mín kær?
 • Nei, ég er engin kisa og ég er mjög hrædd við ketti.
  Spyrill: Ertu kannski mús, með skott og svona fáránlega flotta klippingu?
 • Já ég er einmitt mús, og takk fyrir að hrósa klippingunni minni.

Ef það gleymist í æsingnum að skeyta hrósinu/gríninu fyrir aftan spurninguna er hún ekki gild. Samið er um hversu mörg nei má fá í leiknum fyrirfram.

Óhefðbundnir Ólympíuleikar

Í hvert sinn sem stoppað er í lengri ökuferðum er keppt í óvenjulegri íþrótt til að fríska upp á mannskapinn. Íþróttirnar gætu til dæmis verið langstökk án atrennu með lokuð augun, það að fleyta kellingar með vinstri (örvhentir með hægri auðvitað), hver getur staðið lengst á einum fæti o.s.frv. Þetta losar um umframorku, eykur hugmyndaflug og hvetur til þess að stoppa á öðrum stöðum en venjulega – fæstir eru æstir í að fara í þennan leik á planinu við Staðarskála.

Góðar ferðir í sumar.

Nútímaforeldrar eru líka á Facebook.
Lækaðu ef þér líkar síðan okkar og þá missir þú ekki af neinu.
Svo er dásamlegt að deila.

Auglýsing

læk

Instagram