Syngjum saman um hræát, þunglyndi og vanhæfni

Hafið þið pælt í því sem börnin okkar syngja? Vissuð þið hversu margir vinsælir söngtextar fyrir börn eru gjörsamlega steiktir? Ég er alin upp við afbrigði af söngfasisma (takk Skagafjörður) og get ekki lokað eyrunum. Svo óviljandi rannsóknir mínar hafa leitt í ljós eftirfarandi þemu í vinsælum sígildum sönglögum íslenskra barna:

Sofðu unga ástin mín

Það er margt sem myrkið veit, minn er hugur þungur? Hér er klárlega sungið um fæðingarþunglyndi.

Krummi krúnkar úti

Komdu með mér og kroppaðu í hrútshaus sem ég fann? Hræát.

Krummi svaf í klettagjá

Það er allt frosið, líka nefið á mér, en ég fann freðinn sauð? Klárlega meira hræát.

Braggablús

Í vetur gekk henni betur að galdra til sín karla sem gáfu aur? Vændi krakkar mínir.

Fatlafól

Fatlaður maður í hjólastól varð fyrir valtara og endaði á Sjóminjasafninu? Uhh þetta lag er ekki um umferðaröryggi.

Siggi var úti

Aumingja Siggi fór grátandi heim? Bara aftur og aftur sama í hverju hann lenti. Hann Siggi er smá gunga og hann þarf aðeins að taka sig á. Lag um hugleysi.

Bíum, bíum bambaló

En úti bíður andlit á glugga? Líklega fyrsta lagið sem börn læra um stalkera.

Adam átti syni sjö

Og allir synirnir gerðu alltaf eins og Adam? Þetta er greinilega lag um frábært uppeldi. Þetta ætti að vera þjóðsöngur allra foreldra.

Ég á gamla frænku …

Við eftir henni hermum er hún gengur niðrá torg … þessi texti er um fólk sem leggur frænku sína í einelti, líklega af því að hún er útlendingur.

Gamli Nói

Hann kann ekki að [hvað sem hann er nú að gera] … hér er klárlega lag um vanhæfni. Nói kann ekki að stýra og ekki að poppa, né passa börn, hann Nói er svo vankunnandi að hann kann ekki einu sinni að renna sér. Upprunalegi Nóinn var síðan guðræddur og vís, þó hann drykki. Sá texti er líklega skýrasta dæmið um sönglag um meðvirkni.

Auglýsing

læk

Instagram