Þráir þú heitt það sem þú áður áttir? Frið til að hvílast og sofa …

Börn eru til því einhvern tíma stundaðir þú kynlíf. Það eru í það minnsta líkur á því að það sé skýringin. Og núna þegar það fjör er búið þá eru einhverjar líkur á því að þú þráir heitt það sem þú áður áttir – frið til þess að hvílast og sofa. Ég er ekki að tala um andvökunætur yfir kveisubörnum eða brjóstmylkingum. Ég er að tala um allar hinar næturnar sem fylgja þegar veröldin velkir því bara þannig að þú, kæra foreldri, færð ekki næga hvíld. Það eru mögulega einhver ár í það.

Það er barnið / börnin / makinn.
Það er vinnan.
Það er heimilið.
Það er ríkisstjórnarleysið eða Trump eða vaxtastigið.
Og það er allt sem þú átt eftir að gera, segja, færa, skila, finna, hringja út af eða kveikja í því allt þetta líf virðist á köflum vera eitt linnulaust áreiti og vesen.

Vesen sem kemur í kippum. Sérstaklega fyrir foreldra með marga bolta á lofti.

Svo tölum hreinskilnislega um möguleikann á því að á hverju kvöldi liggi þúsundir örþreyttra foreldra út um allt þetta skítasker okkar; þeir liggja í sófunum og hengslast í tölvunni, hoknir í símunum að rembast við að vera til á Twitter – socially örmagna að klepera á fréttunum og andskotans brúneggjunum og eiga bara þessa sameiginlegu þrá. Að fá að sofa. Svefni hinna réttlátu. Eða svefni hinna þakklátu. Að fá „það“ er að ná meira en átta tímum …

Taggart væri vel sæmdur af mínum baugum.
Hello darkness my old friend.

Það er búið að skrifa svo mikið um mikilvægi svefns og ég trúi því öllu. Svefninn er lykillinn að öllu uppbyggilega stöffinu – framleiðninni, sköpunargáfunni, kjörþyngdinni, jafnaðargeðinu, sáttfýsinni, framtíðinni. Og NB það er kolniðamyrkur á skerinu núna og ég held að við ættum flest að fá að vera í hýði eitthvað fram á vor. Vorir blautu draumar eru um ótruflaðan, óheftan, skilyrðislausan svefn.

En svo eru börnin líka svo falleg þegar þau sofa.

Nútímaforeldrar eru líka á Facebook.
Lækaðu ef þér líkar síðan okkar og þá missir þú ekki af neinu.

Auglýsing

læk

Instagram