today-is-a-good-day

Vögguvísur fyrir börn, fullorðna og refi!

Stundum dugar ekkert annað til að róa krakka á öllum aldri annað en að syngja fyrir þau. Þegar ég eignaðist mitt fyrsta barn var hún oft óróleg á kvöldin og ég veit ekki hvor okkar var meira miður sín yfir því. Ég greip því á það ráð að syngja fyrir hana og strjúka á henni mallakútinn. Það virkaði stundum á hana, en alltaf á mig, ég róaðist við þetta. Síðan þá (og nú eru þær orðnar tvær) þá gríp ég til þess að syngja fyrir þær þegar þær eru óhuggandi.

Til að byrja með kunni ég engar vögguvísur, aðrar en Sofðu unga ástin mín og mér fannst svolítið erfitt að syngja lag um vöggudauða fyrir ungabarnið mitt, nú er ég orðin svo sjóuð að ég syng það blákalt auðvitað. Þá hefði komið sér vel að eiga lagalista að grípa í, svo hér kemur lagalistinn sem ég hefði óskað þess að hafa þegar ég sat og sönglaði heimatilbúna vögguvísu sem hljómaði svona:  „Góða nótt, góða nótt, góða nótt og farðu að lúlla, sofðu rótt, sofðu rótt, sofðu rótt í alla nótt”. (Engin stefgjöld á þessu, svo þið getið stolið þessi óhikað!)

#1 Dvel ég í draumahöll

Klassíker sem svæfir meira að segja refi! Fallegur boðskapur, enginn vöggudauði og allt bara eins næs og hægt er að hugsa sér.

#2 Sofðu unga ástin mín

Ekki fyrir hvern sem er en old school íslensk vögguvísa.

#3 Bí bí og blaka

Eðal lag sem kennir börnunum að plata foreldra sína með því að látast sofa. Gott stöff.

#4 Bíum bíum bamba

Viðlagið byrjar svo notalega með svona barnamáli en endar á andliti á glugga sem mér finnst persónulega frekar krípí en börnin kveikja ekkert á því (vonandi!)

#5 Þei þei ró ró

Yndisleg vögguvísa þar sem fuglarnir þagna og barnið á að sofna hægt og rótt.

#6 Ró, ró á selabát

Ekki beint vögguvísa en svínvirkar, maður byrjar ósjálfrátt að rugga sér.

#7 Frost er úti fuglinn minn

Lítið ljóð um umhyggjusemi og hvernig mömmur bjarga öllu.

#8 Snert hörpu mína … (Kvæðið um fuglana)

Stundum er gott að hafa lag í lengra lagi upp í erminni.

#9 Afi minn og amma mín, Sigga litla systir mín, Fljúga hvítu fiðrildin – medley

Ferskeytlur má hnýta saman endalaust. Best að þær séu sem viðburðaminnstar samt.

#10 Bangsi lúrir

Sungið við Gamla Nóa lagið. Ef maður syngur það virkilega oft þá breytist það í möntru.

#11 Vikivaki (Vorið kemur heimur hlýnar hjartað mitt)

Fallegur boðskapur, gott að syngja í skammdeginu.

#12 Draumalandið (Ó leyf mér þig að leiða)

Síðasta lag fyrir fréttir retro.

Auglýsing

læk

Instagram