​Kanadíska hljómsveitin SUUNS

Póstmóderníski kvartettinn SUUNS (borið fram „súns“) frá Montréal halda fría tónleika á KEX Hostel næstkomandi laugardagskvöld, 2. júlí, klukkan 21:00. SUUNS mynda þeir Ben Shemie, Liam O‘Neill, Max Henry og Joseph Yarmush og er um að ræða eina af sérstæðustu hljómsveitum úr hinni litríku tónlistarsenu Montréal í Kanada. Sveitin var stofnuð af Ben og Joseph árið 2007 og hefur hún hún sent frá sér þrjár breiðskífur á hinni virtu Secretly Canadian-útgáfu (gefa sömuleiðis út War On Drugs, Anohni og Antony and the Johnsons).

SUUNS er hljómsveit sem hefur vakið athygli á sér fyrir margrómaðar breiðskífur sínar þrjár þar sem þeir blanda saman því besta úr raftónlist, kraut-rokki (e. Kraut Rock) og listapönki. Nýjasta breiðskífa þeirra, Hold/Still, kom út fyrr á þessu ári og hefur hún m.a. verið titluð sem platan þar sem Kid A með Radiohead og 20 Jazz Funk Greats með Throbbing Gristle sameinast í eitt verk. Breiðskífuna unnu þeir með Grammy-verðlaunahafanum og upptökustjóranum John Congleton sem einnig hefur unnið með Sigur Rós, St. Vincent, Modest Mouse, Erykah Badu, The Roots, Earl Sweatshirt og Bono svo örfá séu nefnd.

Hold/Still má heyra í heild sinni hér: https://open.spotify.com/album/2KnkXRKacNfNhC65PCoCTm

SUUNS eru mjög iðnir við tónleikahald og eru með bókaða tónleika út árið og koma m.a. fram á nafntoguðum tónlistarhátíðum á borð við Dour Festival, Green Man Festival, Latitude Festival og Pitchfork Festival á árinu. SUUNS spiluðu á Iceland Airwaves árið 2011 og er þetta því í annað skiptið sem hljómsveitin kemur til Íslands.

Auglýsing

læk

Instagram