„Ætli ég myndi ekki velja Egil.“

[the_ad_group id="3076"]

SKE:Valkyrja er einskonar skjaldmær, sumsé, kona sem stundar hermennsku; sem lifir á mörkum jarðneskrar og yfirnáttúrulegrar tilveru; sem flytur þá sem deyja til Valhallar og ræður, jafnframt, sigri í orustum. Í laginu Söngur Valkyrjunnar, setur söngkonan MIMRA sig í spor skjaldmeyjar sem ráðgerir morð á myndarlegum stríðsmanni: „Þú verður ævinlega minn,“ syngur hún. Það er eitthvað fallega Freudískt við þessa hugmynd; ástin og dauðin, Eros og Thanatos, ljós og myrkur. SKE setti sig í samband við MIMRU (María Magnúsdóttir) og spurði hana út í tónlistina, lífið og lagið. 

Hver er MIMRA og hvaðan kemur nafnið?

Ég er MIMRA, tónlistarkona og þetta er listamannsnafnið mitt á mússíkinni sem ég hef verið að semja, pródúsa og spila síðustu ár. Söngur Valkyrjunnar er fyrsta lagið sem ég gef út undir nafninu MIMRA en ég hef verið að bardúsa við tónlist og læra erlendis síðustu ár. MIMRU nafnið fann ég fyrir langa löngu fyrir tilviljun og fannst hljóma vel, fara vel með upphafsstöfunum mínum. 

Þú laukst námi frá Goldsmiths University of London við deildina Popular Music: helsta lexía?

[the_ad_group id="3077"]

Ég held að helsta lexían, fyrir utan hvað ég lærði mikið í náminu, hafi verið sú hvað maður getur lært gríðarlega mikið af samnemendum sínum og því sem þeir eru að gera. Fólk er frábært. 

Hvar myndirðu helst vilja vera stödd í lífinu eftir fimm ár?

Ég vil lifa og hrærast áfram í mússík. Helst vera búin að gefa út aðra eða þriðju MIMRU plötuna og vera að fylgja henni eftir fyrir mun fleira fólki en hefur heyrt í mér í dag 🙂

Uppáhalds jólalag?

Lagið What Are You Doing New Year’s Eve? eftir Frank Loesser frá árinu 1947 er alltaf í miklu uppáhaldi. Kannski einna helst í flutningi Nancy Wilson. 

Hvernig gekk á Airwaves?

Bara mjög vel. Ég flutti heim til Íslands tæpri viku áður og spilaði samtals fimm off venue gigg. Þrammaði milli staða í gulljakkanum og með allar græjurnar í stórri ferðatösku rúllandi á eftir mér. 🙂 Stendur uppúr hvað Bryggjan Brugghús tók skuggalega vel á móti mér og Kíkí Queer Bar giggið var tryllt! 

Hvenær eru fleiri lög væntanleg?

Það verður hægt að heyra næsta lag frá mér snemma á næsta ári. Ég lofa! 

Ef þú yrðir að velja á milli Egils Skallagrímssonar og Grettis Sterka (sem Valkyrja á lausu) hver yrði fyrir valinu?

Halló, halló þú setur mér aldeilis afarkosti! Voru þeir ekki báðir snargeðveikir? Ætli ég myndi ekki velja Egil svo við gætum stolist í skáldamjöðinn, setið að sumbli og ort saman. 

Eitthvað að lokum?

Þeir fiska sem róa! Og jú þið megið endilega kíkja á lagið mitt, Söngur Valkyrjunnar, á Spotify eða nálgast frítt niðurhal á Soundcloud síðunni minni. Allar frekari upplýsingar um mig má finna á www.mimramusic.com

(Hér má hlýða á lagið Söngur Valkyrjunnar á Soundcloud.)

Hér er svo lagið What Are You Doing New Year’s Eve með Nancy Wilson. 

Auglýsing

læk

Instagram