Bauð þjófnum rauðvínsglas og aðstæður breyttust

Nýjasti þáttur hlaðvarpsins Invisibilia hefur vakið verðskuldaða athygli. Þátturinn, sem ber titilinn Flip the Script, fjallar um það hvað gerist þegar fólk bregst við hegðun annarra á þann hátt sem samræmist ekki téðri hegðun.

Eins og einn þáttastjórnandinn segir:

„Við mannfólkið erum yfirleitt þannig að við endurgjöldum reiði með reiði, gæsku með gæsku. Stundum gengur það upp. En stundum ekki. Stundum þarf ekki annað en að snúa hegðun okkar 180° til þess að breyta heiminum. Hugsið til Mahatma Gandhi eða Martin Luther King Jr.“

– Alex Spiegel

Þátturinn segir meðal annars frá því hvernig rólegt matarboð í bakgarði í Washington D.C. breyttist skyndilega þegar vopnaður maður gekk inn í garðinn og miðaði byssu að höfði gestgjafans:

„Give me your money, or I’ll f*’ing start shooting,“ sagði maðurinn („Gefðu mér peningana, eða ég skýt þig.“)

Vildi svo til að gestir matarboðsins voru ekki með neina peninga á sér. Maðurinn brást ókvæða við þessum fréttum og aðstæður versnuðu. Tók þá einn af gestum matarboðsins, kona að nafni Christina, upp á því ráði að bjóða manninum rauðvínsglas.

Þá breyttist allt.

Undrun mannsins mátti lesa á svip hans. Hann smakkaði á víninu, fékk sér ost og setti byssuna í vasann.

„Ég held að ég hafi gengið inn í rangan garð,“ sagði hann svo.

Sátu gestirnir og maðurinn saman undir stjörnubjarta himninum í smá tíma á meðan krybburnar tístu. Það sem skeði næst kom gestunum mest á óvart: Maðurinn bað um faðmlag. Urðu allir gestirnir við bón mannsins og föðmuðu hann. Stuttu síðar gekk hann út um hlið garðsins.

Þessi hegðun, að bregðast við hegðun annarra á hátt sem samræmist ekki téðri hegðun — sumsé, að endurgjalda illsku með gæsku til dæmis — er kallað „noncomplementary behaviour“ í sálfræðinni (hugtakið gæti mögulega útlagst sem „ósamræmandi hegðun“ á íslensku)

Efst á síðunni má sjá skuggabrúðuleikrit eftir framleiðslufyrirtækið Manual Cinema þar sem sagan er sögð á sérdeilis listilegan hátt.

Hér má nálgast þáttinn í heild sinni:

https://www.npr.org/programs/invisibilia/485603559/…

Auglýsing

læk

Instagram