„Ekki þessi týpíska stelpa“—Þórdís Elín gefur út ábreiðu af “Slow It Down” eftir The Lumineers

Auglýsing

Viðtöl

SKE: Enska orðið “Cover” útleggst gjarnan sem Ábreiða á íslensku en hugtakið vísar í það þegar tónlistarfólk flytur, eða gefur út, lög eftir annað tónlistarfólk (einnig eru orðin Tökulag, Kráka eða Þekja stundum notuð). Í gegnum tíðina hafa margar góðar ábreiður litið dagsins ljós, og gefa sum þeirra upprunalegu útgáfu tiltekins lags ekkert eftir. Má þar helst nefna ábreiðu Jimmy Hendrix af laginu “All Along the Watchtower” (sem Bob Dylan samdi), útgáfu Whitney Houston af laginu “I Will Always Love You” (sem Dolly Parton samdi), og ábreiðu Johnny Cash af laginu “Hurt” (eftir hljómsveitina Nine Inch Nails). Í samhengi góðra ábreiðna er ekki úr vegi að nefna ábreiðu akureyrsku söngkonunnar Þórdísar Elínar af laginu “Slow It Down” eftir bandarísku hljómsveitina The Lumineers, en Þórdís Elín gaf út ábreiðuna fyrir stuttu. Í tilefni þess heyrði SKE í Þórdísi og spurði hana spjörunum úr. 

Viðtal: RTH
Viðmælandi: Þórdís Elín Bjarkadóttir Weldingh
Ljósmynd: Ísak Matthíasson

SKE: Já, góðan daginn.

Auglýsing

Þórdís Elín: Góðan og blessaðan!

SKE: Hvað segirðu gott?

ÞE: Ég er bara mjög fersk.

SKE: Hver er Þórdís Elín?

ÞE: Það er stór spurning. Hún er kannski bara lítil stúlka frá smábæ sem nýtur þess að gera tónlist og langar að ná langt. En ætli flestir myndu ekki lýsa mér sem hógværri og hlédrægri á meðan sumum finnst ég hvatvís. Fer kannski eftir því í hvaða aðstæðum en ég reyni alltaf að vera bara ég.

SKE: Hver er hún ekki?

ÞE: Ég er ekki þessi týpíska stelpa, myndi ég segja. Ég þoli ekki rómantískar gamanmyndir en elska Marvel. Ég trana mér ekki fram og baktala ekki neinn því ég veit hvernig það er að vera hinum megin við það.

SKE: Þú varst að gefa út ábreiðu af laginu Slow It Down eftir The Lumineers á Spotify. Hvers vegna varð þetta lag fyrir valinu?

ÞE: Það hefur verið í miklu uppáhaldi frá því ég heyrði það fyrst fyrir um tveimur árum. Ég hef oft leikið mér með það heima og mér líður vel með það svo mér datt í hug að gaman væri að gefa það út.

SKE: Upprunalega lagið syngur Wesley Schultz en í texta lagsins ávarpar hann kærustu sína. Kom það til greina að breyta textanum?

ÞE: Textinn er fallegur svona eins og hann er. Það þyrfti líka að breyta ansi miklu (haha).

SKE: Hver sá um undirspilið í laginu—og hvar var lagið hljóðritað?

ÞE: Ivan Mendez sá um þetta allt. Ég hefði aldrei getað þetta án hans. Við tókum lagið upp í Stúdíói Hljómbræðra og N19 og sá Ivan líka um að hljóðblanda.

SKE: Þú ert með ótrúlega sterka og fallega rödd. Hvenær byrjaðirðu að syngja og hvers vegna?

ÞE: Það er kannski svolítið klassískt að segja það en ég hef eiginlega sungið allt frá því ég man eftir mér. Þegar ég var tveggja ára áttum við lítið hljómborð sem ég glamraði mikið á og söng hástöfum með. Í framhaldinu fór ég svo að fikta í gíturunum hans pabba og syngja meira.

SKE: Þar sem þú varst að gefa út ábreiðu er ekki úr vegi að spyrja: Hvaða ábreiður eru jafnvel betri en upprunalegu útgáfur tiltekins lags?

ÞE: Ellie Hopley flytur mikið af ábreiðum og finnst mér hennar útgáfur sjúklega góðar.

SKE: Stefnirðu á að gefa út eigin tónlist á næstunni?

ÞE: Já, það geri ég. Ég á nokkuð efni en hef enn ekki gefið neitt af því út en það gerist vonandi í náinni framtíð.

SKE: Eitthvað að lokum?

ÞE: Ég er þakklát fyrir mína nánustu að styðja við bakið á mér.

(SKE þakkar Þordísi kærlega fyrir spjallið og hvetur lesendur til þess að fylgjast með henni í framtíðinni.)

Facebook: Thordis

Auglýsing

læk

Ummmmm...

Instagram