Aníta Briem

Viðtal: Ragnar Tómas
Viðmælandi: Aníta Briem
Ljósmyndir: Allan Sigurðsson

SKE: Það er illa séð að hefja literatúr með tilvitnun – sérstaklega ef
tilvitnunin krefst þess að maður togi þann sem maður vísar í upp úr
gröfinni fyrst, áður en brothætti, beinaberi kjálkinn getur byrjað að
masa. En ég er rithöfundur, og rithöfundar eru snjallir þorparar, sem
gera sér grein fyrir því að það að viðurkenna svívirðilegt eðli syndarinnar
áður en hún er drýgð – er að innheimta góðvild af vitnunum (lesendum).
Því segi ég fyrirgefið mér: Oscar Wilde sagði að það væri rangt að
aðgreina menn í góða og vonda. Menn eru annað hvort heillandi eða
leiðinlegir. Þessi tvígreining Wilde var mér sérstaklega hugleikin í gær,
þar sem ég – sem umgengst aðallega hvimleiða vindbelgi, með raddir
eins og suðandi skordýr, og sem tókst ekki einu sinni að heilla mæður
sínar sem ungabörn – upplifði sérkennilegt óöruggi í návist Anítu Briem.
Í hreinskilni gerði ég mitt besta til þess að koma ekki fyrir sem einhvers
konar flaðrandi hundur … Við ræddum nýju bókina, Werner Herzog
og orðspor Íslendinga erlendis.

(Klukkan hálf sjö á fimmtudagskvöldi yfirgef ég skrifstofuna og geng í átt að
Ingólfsstræti. Ég beygi til hægri inná Center Hotel og fer með lyftunni upp á
efstu hæð – á Ský Bar. Hurðirnar ljúka upp og ég geng framhjá barnum í átt að
fólkinu og þar, í sólbjörtum sal, sem býður upp á sjaldgæfa víðmynd af gömlu
Reykjavíkurhöfn, situr Aníta Briem. Hún er í hvítum bol með svartan hárborða. Við
heilsumst og bjóðum hvert öðru gott kvöld. Aníta byrjar samræðuna eins og allt
sjarmerandi fólk byrjar samræður: með því að hæla viðmælanda sínum. Hún tjáir
mér að vinur hennar hafi nýverið sungið mér lofsöngva.)

SKE: Er eitthvað að frétta af Kill the Poet (Kill the Poet er kvikmynd sem hefur
lengi verið í vinnslu undir leikstjórn Jóns Óttarrs og á að skarta Anítu ásamt
Þorvaldi Davíð, Nínu Dögg og Gísla Erni)?

Aníta: Hún er ennþá í vinnslu; þetta er eflaust ekki fyrsta myndin sem hefur tekið
10 ár að framleiða.

(Hún hlær. Þetta er aðlaðandi hlátur – eins smitandi og kærkomin plága. Þjónninn
kemur með bjórinn minn og við Aníta skálum.)

Aníta: Þetta er rosalega fallegt handrit, sem fjallar um ástarsamband Steins
Steinarrs og Louisu Matthíasdóttur. Myndin gerist í kringum 1930 og það er dýrt
að framleiða þannig myndir; það þarf að skreyta göturnar með gömlum bílum.

SKE: Ég og kærastan mín búum á Ránargötunni og ég geng reglulega framhjá Unuhúsi. Þetta er svo
heillandi tímabil í íslenskri sögu.

Aníta: Myndin inniheldur svo mörg skemmtileg „element,“ allt þetta ótrúlega
fólk, þetta ástarsamband, þessa pólitík sem var í gangi á þessum tíma –
nasisminn að rísa og seinni heimstyrjöldin að bresta á.

(Ég segist ekki hafa vitað af sambandi Steins og Louisu. Aníta tjáir mér að
foreldrar Louisu hafi ekki samþykkt þetta samband. Fyrir þeim var Steinn lítið
annað en róni, sem gekk um í skítugum fötum og var lítið efni í tengdarson.
Steinn átti upprunalega að fara með Louisu til New York en foreldrar hennar
komu í veg fyrir það.)

Aníta: Eigum við ekki öll þessa einu ást sem við hugsum alltaf: „Hvað ef? Hvað ef
lífið hefði farið á þennan veg?“

(Það er stutt þögn er hvort okkar veltir þessum möguleika fyrir sér.
Rithöfundurinn í mér leitast við að nýta sér þetta tækifæri.)

SKE: Átt þú eina þannig?

(Aníta horfir til mín dularfull á svip.)

Aníta: Já, já.

(Svo hlær hún.)

SKE: Þú veist að ég er búinn að kveikja á diktafóninum …

(Aníta heldur áfram að hlæja og ég gef í skyn að þetta hafi verið ákveðið „setup“.)

Aníta: Flott hvernig þú leiddir mig inn í þetta …

(Aníta þykist hósta og ég skipti
um umræðuefni.)

SKE: Segðu mér frá nýju bókinni þinni …

Aníta: Bókin var óvænt og skemmtilegt verkefni. Ég ætlaði aldrei að skrifa bók en þegar ég fór í gegnum meðgönguna mína fannst mér svo erfitt að finna mér
eitthvað að borða. Ég gat ekki hugsað um mat, var óglatt og orkulaus.

(Dóttir Anítu, Mía, fæddist í byrjun árs 2014. Aníta gaf út bókina Mömmubitar,
ásamt Sollu Eiríks, í apríl á þessu ári.)

Aníta: Ég var alltaf að leita mér að bók sem var ekki uppfull af hræðsluáróðri:
„Ef þú borðar þetta þá dettur höndin á barninu af!“ Ég fékk nóg af þessu og
ákvað að skrifa mína eigin bók. Ég fékk Sollu á Gló með mér og ég vef inn alls
konar persónulegum sögum sem koma inn á ýmis málefni.

SKE: Áhugavert. Ég vissi það ekki …

Aníta: Ég sá þetta svo fyrir mér – en þetta er ekki bók um mig. Þetta er bók fyrir
óléttar konur. Það er svo margt sem gengur á, á meðgöngunni, þar sem maður
hugsar: „Ég er viss um að ég er ein í heiminum sem er að upplifa þetta.“ Bara
með að lesa það að einhver annar hefur gengið í gegnum þetta þá róast maður.

SKE: Mér finnst þetta merkilegt; það eru ekki margir sem fá hugmynd að bók og
stuttu síðar er Solla komin í málið og bókin komin út.

(Ég er að hugsa um eigin bók, sem ég hef stritað við í fjögur ár. Ég öfunda
drifkraftinn hennar Anítu. Hún segist hafa verið rosalega heppin með
samstarfsfólk. Aldrei á neinum tímapunkti var henni sagt: „Aníta, þetta er
asnalegt!“ Hún naut ákveðins listræns frelsi og er ánægð með það að þau náðu
að viðhalda upprunalegu hugmyndinni. Hún hælir einnig Sollu og segir að það
sé sjaldgæft að ganga í gegnum svona langt ferli með einhverjum án þess að
ágreiningar komi upp; sólskinið skein út úr eyrunum hennar Sollu allan tímann.
Ég hlæ. Það er verið að þýða bókina á ensku.)

SKE: Þú hefur ekkert hugsað þér að fara til erlends útgáfufyrirtækis
upprunalega?

Aníta: Nei, mig langaði að skrifa bókina fyrir Ísland, því að fólk gerir hlutina
aðeins öðruvísi í Ameríku (Aníta er búsett í Hollywood með eiginmanni sínum
Constantine Paraskevopoulos). Mig langaði að taka myndirnar hérna og ég held
að það sé góður kostur þegar hún fer erlendis. Við tókum myndirnar í Kjós, í
gamla húsinu hans Tolla.

(Ég segi að það sé svo mikil ró og viska sem fylgir Tolla.)

Aníta: Ég stal peysunni hans Tolla og var í henni á meðan á myndatökunni stóð.
Það er rétt hjá þér: Það var mikil viska og ró sem fylgdi þessari peysu!

(Við hlæjum.)

SKE: Þú ert að leika í nýjustu myndinni hans Werner Herzog.
Hvernig kom það til?

Aníta: Ég fékk símtal frá umboðsmanninum mínum og mér var tjáð að einhver
úr teyminu hans hefði hringt og beðið mig að senda inn prufuupptöku af sjálfri
mér. Þetta er lítið hlutverk, en ég mundi gera hvað sem er til þess að vinna með
honum: Ég mundi þvo á honum fæturna ef hann bæði mig um það!

SKE: Ég elska hann!

Aníta: Hann er rosalegur. Ég horfði aftur á þær myndir sem ég hafði séð ásamt
þeim sem ég hafði ekki séð. Svo horfði ég einnig á mörg viðtöl við hann og
það er svo ofboðslega gaman að hlusta á hann tala – að sjá heiminn með hans
augum.

SKE: Hann býr yfir svo mikilli dýpt. Ég er mikil aðdáandi hlaðvarpsþáttarins
Entitled Opinions, sem Robert Harrison, prófessor í ítölskum bókmenntum
í Stanford, stýrir. Þetta er þáttur sem snýr aðallega að bókmenntum og
heimspeki …

(Aníta punktar niður heiti þáttarins og segist ætla að hlusta á þennan þátt. Ég
held áfram að blaðra um ágæti Entitled Opinions og segi Anítu frá því að Herzog
hafi verið gestur þáttarins fyrir nokkrum vikum síðan. Í þættinum ræddi Herzog
bókina the Peregrine, sem kom út árið 1967 í Englandi, og er nú talin eitt af
meistaraverkum 20. alda bókmennta. Ég bæti því við að hlýða á Herzog spjalla
um líf og literatúr hafi verið ákveðin upplifun. Hann er mikill aðdáandi Snorra-Eddu.)

Aníta: Hann segir alltaf að áður en þú getur orðið góður kvikmyndatökumaður
verður þú fyrst að lifa! Þú verður að lesa allt og læra að vinna eitthvað með
höndunum! Þú verður að læra nýtt tungumál og búa í öðrum löndum! Þetta er
ótrúlega falleg speki. Ég fór í tökur í Munchen. Eftir að tökum lauk var lítið lokahóf
á pínulitlum ítölskum veitingastað, sem við höfðum út af fyrir okkur. Ítalska
maddaman sem rekur staðinn eldaði persónulega ofan í alla og ég sat þarna við
enda borðsins hliðina á Gael Garcia Bernal, sem leikur einnig í myndinni,
og Werner og konunni hans …

SKE: Hvað heitir konan hans aftur, hún er ljósmyndari, er það ekki?

Aníta: Ohhh, ég man það ekki. Ég man ekki neitt: Ég er með mömmuheila.

SKE: Ég er alveg eins …

Aníta: Þú ert ekki með mömmuheila …

(Aníta hlær.)

Aníta: Ég veit aldrei hvaða dagur er. Ég veit aldrei hvaða mánuður það er.

SKE: Allt að sökum óléttunnar?

Aníta: Nei, bara vegna þess að ég þarf ekki að vita það: það skiptir engu máli.
Í næstu viku er þetta að gerast og þar á eftir þetta. Það er enginn munur á helgi
og virkum degi. Það er engin regla í mínu lífi.

SKE: En aftur að sögunni …

Aníta: Já, hann var svo mikið að tjá sig um Edward Snowden og
sagði að hann yrði hetja þessarar aldar í framtíðinni. Ég tók þetta
svolítið inn á mig þar sem áróðursvél Bandaríkjanna hefur verið
að mata mann með þeim upplýsingum að Snowden hafi lagt
öryggi þjóðarinnar í hættu.

(Fortíðin vitjar mín eins og myndbrot úr skáldsögunni 1984:
Ég stend í Amerískri skólastofu. Hægri hönd hvílir yfir hjartanu er ég heiti bandaríska fánanum hollustu mína.)

SKE: Hvernig var upplifun þín á settinu?

Aníta: Ég er mikill aðdáandi ákveðinna leikstjóra. Ég sendi inn
prufu af sjálfri mér og nokkrum dögum síðar – þegar ég var að
baða dóttur mína – þá er ég í símanum að eyða út ruslpósti. Í
þann mund sem ég er að fara eyða einu tilteknu bréfi, verður
mér litið á nafn sendandans: Werner Herzog. Það kom mér
skemmtilega á óvart. Veistu það: Þó svo að þetta sé lítið
hlutverk, og allt það, þá var þetta svipuð ofurgleði og ég upplifði
þegar ég var níu ára og mér var tilkynnt að ég hafi fengið
hlutverk Ídu í Emil í Kattholti!

(Hún hlær mjög dátt.)

Aníta: Hann hefur augljóslega mjög sterkar skoðanir á öllum
hlutum. En ég er þannig að í hvert sinn sem einhver varar mig
við einhverjum ákveðnum leikstjóra: Hann er harðstjóri, hann
er sadisti, hann er einræðisherra – þá hugsa ég yfirleitt: „Úúúú,
þetta verður gaman!“

(Við hlæjum.)

Aníta: Ég veit ekki hvað það segir um mig. Þegar leikstjórar eru
mjög ákveðnir þá eru það gleðifréttir fyrir mig, vegna þess að
þá veit leikstjórinn hvað hann vill. Kvikmyndin er bara auga
leikstjórans og ef hann hefur ekki nákvæma sýn þá verður ekki
mikið úr myndinni. Þannig að mér er alveg sama ef þeir eru að
berja mig til í leiðinni – svo lengi sem að útkoman sé góð.

(Aníta hlær og byrjar að ræða þessa reglulegu hugljómun sem
fylgir því að þroskast.)

Aníta: Ég man þegar ég var 18 ára þá hugsaði ég: „Svona eru
hlutirnir og svona sé ég þetta og þetta er málið!“ Svo þegar ég
var 24 ára þá hugsaði ég: „Djöfull var ég vitlaus þegar ég var 18
ára. Þetta er, í raun og veru, svona!“ Svo aftur þegar maður er
28 ára þá hugsar maður: „Ég var að misskilja þetta allt saman!
Guð hvað ég skammast mín mikið fyrir það sem ég sagði þegar
ég var 24 ára!“ Og á þessu augnabliki, þegar ég sat þarna með
Herzog, þá hugsaði ég í fyrsta skiptið: „Kannski er bara best að
segja sem minnst – af því að ég veit að eftir tvö ár þá á ég eftir
að sjá eftir þessu.“

(Við hlæjum og ég segi Anítu að ég hafi verið í sambærilegum hugleiðingum
þegar ég hlustaði á viðtalið við hann í Entitled Opinions. Ég átta
mig svo á því að mætur okkar á þýska leikstjóranum hafa leitt
okkur út í ákveðnar viðtals-óbyggðir, óbyggðir sem engu að
síður afhjúpuðu nokkrar áhugaverðar hliðar Anítu.)

SKE: Ég frétti að þú hafir nýverið samið tónlist fyrir kvikmynd,
er það rétt?

Aníta: Já, þetta var fyrir litla mynd með Dakota Johnson og Mira
Sorvino. Ég hef verið að gera tónlist í leyni, notað tónlistina sem
annars konar útrás. Ég sem stundum í „trailer-num“ á meðan ég
er að bíða eftir tökum, eða til þess að þróa karakter.

SKE: Á hvað semur þú?

Aníta: Á gítarinn og stundum á píanóið. Núna hef ég verið að
vinna með Pro Tools. Ég lærði á flautu allt mitt líf. Ég var á
klassískri flautu …

(„En ekki djass flautu,“ segir Aníta og gerir grín að sjálfri sér.)

SKE: Wagner spilaði á klassíska flautu …

(Aníta grípur ekki alveg þessa tilraun mína til húmors en hlær samt sem áður.)

Aníta: Mike Figgis gaf mér minn fyrsta gítar. Ég var að vinna í
leikriti í West End á þessum tíma. Hann krotaði niður nokkur grip
á blað og sagði mér að spila. Svo spurði ég hann hvaða lag þetta
væri sem hann var búinn að krota niður á blað, en hann neitaði
að segja mér það. Þannig að ég sat baksviðs í West End að
djöflast við að fá einhverja hljóma upp úr þessu kroti vegna þess
að ég var svo forvitin að vita hvaða lag þetta væri.

(Við hlæjum. Allan ljósmyndari
gengur inn og Aníta bíður
honum sæti.)

SKE: Hvaða lag var þetta?

Aníta: Þetta var Georgia on
My Mind. Svo var ég búin að
djöflast í þessu þrjú, fjögur
kvöld þegar ég loks áttaði mig
á laginu. Mig langaði helst til
þess að hlaupa heim og fagna
þessu!

SKE: Var það faðir þinn sem
kom þér í „klassíska“ flautu
spilið?

(Aníta hlær.)

Aníta: Ég byrjaði á blokkflautu
þegar ég var fimm ára.
Svo lærði ég á alt flautu,
því mamma hafði spilað á
alt flautu. Það fannst mér
ekki gaman. Ég vorkenndi
svo kennaranum mínum,
henni Lindu, því hún var svo
rosalega ljúf en svo afskaplega
vonsvikin með mig í hverjum
tíma. Ég var orðin rosalega
góð í því að lesa nótur því ég
nennti aldrei að æfa mig.

(Hún hlær mjög dátt.)

Aníta: Markmið mitt var að
læra á píanó, en ég er með svo
litlar hendur.

(Hún setur flatan lófan upp í
loftið. Þetta er eins og lófin á
fimm ára barni. Ég er sjálfur
með afskaplega litlar hendur
og teygi lófann á móti henni:
Aldrei áður hefur mér liðið jafn
vel með eigin hendur.)

Aníta: Þetta er mjög gott fyrir
egó karlmannsins.

(Við hlæjum og ég kinka kolli.
Ásjóna Allans ljóstrar upp um
kímið skilningsleysi.)

SKE: Hvað langar þér að gera
í framtíðinni?

Aníta: Maður er alltaf að leita
af þessum einstöku verkefnum
og mig langar til þess að
finna „mína“ leikstjóra, það
er markmiðið. Það er mjög
sjaldgæft að vinna með
leikstjóra sem hefur virkilegan
áhuga á því að kafa dýpra ofan
í kvenpersónur.

SKE: Hefurðu fylgst eitthvað með pólitíkinni hérna heima?
Maður er svo áhugasamur um hvernig Íslendingar sem búa
erlendis sjá hlutina …

Aníta: Úti komu svo margir upp að mér og sögðu: „Heyrðu
landar þínir þeir eru nú alveg topp fólk, sko! Þeir láta ekkert vaða
yfir sig! Þeir stungu bankakörlunum í fangelsi og þegar þeir
mótmæla þá er hlustað á fólkið!“ Svona er almenn tilfinning
gagnvart Íslendingum úti. Mér finnst það mjög skiljanlegt að fólk
sé reitt; þetta var rosalega erfiður tími fyrir svo marga, hrunið.
Þráðurinn er stuttur og ég held að það sé mjög gott mál. Við
verðum svolítið að endurmeta hvað er löglegt á móti því hvað
er siðferðislega rétt. Þetta er rótin að vandamálinu sem byrjaði
á Wall Street. Það er mikilvægt að meðhöndla þetta þannig að
við reynum að kenna næstu kynslóð hvað það er að hlúa að sínu
siðferði, kannski að það sé eitthvað sem er virkilega þess virði
að rannsaka í þessu máli.

SKE: Góður punktur. Manni finnst líka að næsta kynslóð sé
aðeins meðvitaðri um kvenréttindi, jafnrétti og siðferði heldur
en fyrirrennarar hennar.

Aníta: Manni finnst það.

(Við tölum aðeins um kosningarnar og ég segist helst vilja fá
einhvern sterkan kvenmann í embættið aftur, þar sem Vigdís
var svo mikill sjarmur.)

Aníta: Þegar við vorum að frumsýna Emil í Kattholti í
Þjóðleikhúsinu þá mætti Vigdís. Forsetinn mætti á allar
frumsýningar á þessum tíma og sat í stúkunni. Amma mín var
einnig viðstödd, en hún er ekkert ósvipuð yfirlitum og Vigdís og
hafði líka fengið stúkusæti. Þegar amma gengur inn stendur allur
salurinn upp fyrir henni og byrjar að klappa – og amma mín, sem
er ofboðslega lítillát fór alveg hjá sér. En það segir svo mikið um
það hversu elskuð Vigdís var.

SKE: Það er kannski eitthvað sem öllum þessum
frambjóðendum skortir, það er enginn á hennar „caliber-i“
– enginn sem maður mundi standa upp fyrir í Þjóðleikhúsinu.
En kannski að tímarnir séu bara svo breyttir …

(Við hlæjum.)

SKE: Svo var hún svo flott á röltinu með Ronald Reagan …
en er þetta ekki ágætis endapunktur? Viltu bæta einhverju við?
Segðu mér aðeins meira frá „the one who got away?“

Aníta: Við tökum það í öðru lífi …

(Við hlæjum. Ég þakka Anítu fyrir spjallið og við stígum út á verönd Ský
Bar. Að vanda, bregð ég mér í hlutverk aðstoðarmanns Allans; þetta er
eins og að vera lækkaður í tign. Á meðan ég beini flassinu í átt að Anítu, sem stendur með bakið í átt að Esjunni, tekur Allan myndir. Ég lít
í átt að gluggunum. Gestir staðarins fylgjast með okkur forvitnir á svip.
Við einn gluggann situr stirðlynd kona á fertugsaldri, á að giska, –
hversdagsleg í útliti. Hún starir á Anítu á sama hátt og Salieri myndi
stara á Mozart, ímynda ég mér: „… tvær tegundir af fólki,“ hugsa ég með
sjálfum mér, „heillandi fólk og leiðinlegt fólk.“)

Auglýsing

læk

Instagram