Barði Jóhannsson

„Fyrir mig er ekki nóg að fólk sé bara hæfileikaríkt heldur verður það líka að vera skemmtilegt“

Fyrir skemmstu kom út fjórða hljóðversplata Bang Gang, sólóverkefnis Barða Jóhannssonar og nefnist hún The Wolves are Whispering. Voru þá liðin sjö ár frá útkomu síðustu breiðskífu Bang Gang svo margir voru orðnir langeygir eftir nýrri plötu. Barði hefur þó fjarri setið auðum höndum á tímabilinu, hann hefur samið klassísk tónverk, tónlist fyrir kvikmyndir og sjónvarp og unnið að samstarfsverkefnum með öðrum listamönnum svo fátt eitt sé nefnt. Á nýju plötunni lítur Barði að vissu leyti aftur og þar ber við rafrænan hljóm, sem segja má að kallist á við fyrstu skref Barða undir nafni Bang Gang. Ske er yfir sig hrifið af nýju plötunni og setti sig í samband við Barða og ræddi við hann nýju plötuna, fortíðina, framtíðina og hátt leiguverð í Hörpu, meðal annars.

Síðasta plata, Ghosts From the Past, kom út fyrir sjö árum, hví leið svo langur tími á milli platna?

Þegar Ghosts from the Past kom út þá fylgdi í kjölfarið tónleikaferð. Stuttu síðar héldum við Keren Ann tónleika með Sinfóníuhljómsveit Íslands og kór þar sem við spiluðum lög með Bang Gang, Keren Ann og Lady & Bird. Þessir tónleikar voru teknir upp og gefnir út af EMI/MUTE undir merkjum Lady & Bird. Þá lékum við tónleika í París með sama fyrirkomulagi. Svo tók við kvikmyndatónlist, semja óperu með Keren Ann, klassísk verkefni, auglýsingatónlist, Best of Bang Gang-útgáfa, meiri kvikmyndatónlist, upptökustjórn og hljóðblöndun fyrir aðra, útgáfa á nýju verkefni hjá mér og JB Dunckel (Air, Darkel, Tomorrows World) auk nefndarstarfa. Með þessu hafði ég svo alltaf verið að vinna smám saman í nýju plötunni. Það var svo á síðasta ári sem ég tók tíma í að klára plötuna. Eins hef ég verið að vinna í klassísku verkefni samnhliða.

Nýja platan, The Wolves are Whispering, er elektrónískari en sú síðasta sem var svotil alfarið akústísk, þú snýrð þér að nokkru aftur að raftónum, geturðu sagt okkur nokkuð um hví?

Síðasta plata á undan Wolves endaði reyndar á tveimur elektrónískum lögum sem ég gerði með Anthony Gonzales (M83). Ég leit á það sem yfirlýsingu um það sem koma skyldi. The Wolves are Whispering er mjög blönduð, það eru lög sem eru níutíu prósent akústísk og svo önnur sem eru áttatíu prósent elektrónísk og allt þar á milli. Samt er elektróníkin yfirleitt spiluð af gítar eða á hljómborð sem hafa verið tekin í gegnum magnara.

Er efni plötunnar samið yfir þetta langa tímabil sem liðið er frá útgáfu síðustu Bang Gang-plötu eða er það nýlega orðið til?

Elsta lagið var samið í lok upptakanna á Ghosts From the Past og það nýjasta í fyrra og allt þar á milli. Þetta eru lögin sem hafa enst hvað best. Ég opnaði lögin á nokkurra mánaða fresti og prófaði eitthvað nýtt þannig að hljómurinn verður tímalausari fyrir vikið.

Í frábæru fyrsta lagi plötunnar, „The Sin is Near,“ nýturðu liðsinnis Bloodgroup. Geturðu sagt mér nokkuð um hvernig það kom til og kannski líka samstarfið við Jófríði Ákadóttur úr Samaris?

Í stuttu máli þá finnst mér Bloodgroup frábær hljómsveit og Jófríður frábær listamaður. Ofan á það vill svo skemmtilega til að það er gaman að vinna með þeim, þau hafa frábærar hugmyndir og lögin hljóma mjög mikið eins og samstarf sem hefur heppnast vel. Fyrir mig er ekki nóg að fólk sé bara hæfileikaríkt heldur verður það líka að vera skemmtilegt. Svo var í báðum tilfellum. Við sömdum lögin alveg saman þannig að þetta var hundrað prósent samvinna.

Textar plötunnar eru fremur myrkir, nærri mystískir, hvaðan færðu innblástur til textagerðar?

Innblásturinn kemur að innan og endar svo sem útblástur. Þegar ég bý til tónlist þá sé ég fyrir mér aðstæður eða senu í huganum og bý til tónlist við þá senu. Textarnir og tónarnir eru svo lýsing á þessum aðstæðum og umhverfi. Yfirleitt eru þetta staðir sem ég hef komið á, séð eða samsett úr ýmsu. Eins með þær upplifanir sem lýst er í textunum.

Hyggstu koma mikið fram á tónleikum í kjölfar útgáfunnar og geta Íslendingar átt von á því að sjá þig spila fljótlega?

Ég ætla að halda útgáfutónleika í Gamla Bíó í byrjun september. Það er fullkominn staður. Popptónlist er alþýðutónlist og eins og Harpan verðsetur leigu á tónleikasölum þá er ómögulegt að halda tónleika þar nema hafa miðaverðið mjög hátt. Það hátt að láglaunaður almenningur hefur ekki efni á að koma. Ég vil geta spilað fyrir alla.

Þú hefur unnið allnáið með öðrum listamönnum, m.a. Keren Ann að verkefninu Lady & Bird og Jean- Benoit Dunckel í Air að Starwalker. Nálgastu þessi samstarfsverkefni að einhverju leyti á frábrugðinn máta því sem þú gerir fyrir Bang Gang?

Ég nálgast þessi verkefni allt öðruvísi. Þegar ég er í samstarfi eða samvinnu með einhverjum, þá er ekkert notað sem bara annar aðilinn er sáttur við. Í mínu sólóverkefni hef ég bara sjálfan mig til að taka listrænar ákvarðanir. En með Lady & Bird og Starwalker er hundrað prósent lýðræði. Báðir aðilar verða að vera sáttir. Það hefur aldrei komið upp alvarlegur ágreiningur í þessum verkefnum. Bara gleði og allir ánægðir.

Það er gott að heyra, verður að segjast. Auk þess að gera eigin tónlist hefurðu fengist talsvert við að pródúsera fyrir aðra listamenn, geturðu sagt nokkuð um hvort einhver slík verkefni eru í pípunum? Eða ef til vill kvikmyndatónlist?

Ég er að gera klassíska plötu núna sem er mjög ambient. Svo er Starwalker að gefa út stóra LP plötu á árinu. Svo er mig farið að langa að gera eitt score eftir alla popptónlistina og er að skoða nokkur verkefni núna.

Það er semsé nóg í vændum hjá monsieur Jóhannssyni, þegar einu verki lýkur tekur hið næsta við. Ske þakkar Barða kærlega fyrir samtalið, óskar honum til hamingju með útkomu nýju plötunnar og hlakkar til þess sem koma skal.

Auglýsing

læk

Instagram