Gucci Mane, Slayer og Clean Bandit á Secret Solstice 2018

Síðasta sumar fór Secret Solstice tónlistarhátíðin fram í Laugardalnum en óhætt er að segja að rapptónlist hafi sett mark sitt á helgihaldið; nafntogaðir bandarískir rapparar á borð við Rick Ross, Big Sean, Anderson .Paak, Young M.A. og Pharoahe Monch voru meðal þeirra sem stigu á stokk – að undanskildum öðrum lofsælum íslenskum röppurum. 

Í ár einkennist hátíðin af sambærilegri rímnagnótt en í dag (20. febrúar) kynntu aðstandendur hátíðarinnar þrjú ný aðalnúmer („headliners“) og ber helst að nefna – í því samnhengi – hinn mikilsvirka Gucci Mane:

„Næst ber að nefna ‘gangster’
rappara Gucci Mane en í bígerð er bíómynd um ævi
hans sem er stórmerkileg. Hann er gríðarlega afkastamikill
tónlistarmaður og eftir hann liggja vel á þriðja tug
platna. Hann gaf út nýja plötu árið 2017, ‘Mr. Davis’ en
lagið ‘Get the Bag’ sem hann tekur með Migos er að finna á henni.“

– (Fréttatilkynning Secret Solstice)

Hinar tvær hljómsveitinar sem kynntar voru til leiks í tilkynningunni eru guðfeður trash metalsins Slayer – sem hefja Evrópulegg síðustu tónleikaferðalags síns á Solstice – og elektrópopp sveitin Clean Bandit sem hefur notið mikilla vinsælda á streymisveitunni Spotify sem og á Youtube.

Þessir listamenn bætast nú í hóp þeirra hljómsveita og listamanna sem þegar er búið að kynna, þar á meðal Stormzy, Bonnie Tyler, Death From Above, Steve Aoki, Jet Black Joe, 6lack, Goldlink, J Hus, Charlotte de Witte, HAM, A-Trak, Masego, IAMDBB, Högna o.fl. Þá bætist einnig við góður hópur af íslenskum listamönnum: Alvia, Cell7, Elli Grill, Geisha Cartel, Landaboi$, Ragga Holm, Sprite Zero Klan, Vala CruNk og Young Nigo Dropping. 

Hér fyrir neðan má svo sjá plakat hátíðarinnar eins og það lítur út í dag.

Auglýsing

læk

Instagram