Ólafur Arnalds spilar í Louvre safninu í maí

Auglýsing

Það er nóg að gera hjá Ólafi Arnalds. Ekki nóg með það að hann hafi nýlega verið tilnefndur til BAFTA verðlaunanna – í annað sinn, heldur er hann einnig að stýra nýjustu útgáfu Late Night Tales seríunnar, ásamt því að vera nýkominn heim frá París þar sem hann spilaði með Kiasmos – og er reyndar á leiðinni þangað aftur í maí til þess að spila í hinu sögufræga Louvre listasafni. Við þetta má svo bæta að hann er líka á leiðinni í tónleikaferðalag með Kiasmos á næstunni, en áður en ferðalagið hefst ætla þeir félagarnir að hita upp á Paloma á laugardaginn, með sérstöku DJ setti.

SKE setti sig í samband við Ólaf nú á dögunum til þess að forvitnast um þetta allt saman.

Þú varst fenginn til þess að stýra nýjustu útgáfu Late Night Tales seríunnar (sem kemur út í júní), en það hafa margir góðir stýrt þessari útgáfu áður, t.d. Air, Bonobo, Four Tet og Belle & Sebastian. Hvernig kom þetta til?

Ég var í raun bara beðinn um það. Veit ekki alveg hvernig það kom til en ég hitti Paul eiganda Late Night Tales útgáfunnar í „dinner“ í London fyrir Kiasmos tónleika. Þar mætti hann með fjölmiðlafulltrúanum mínum og byrjaði að leggja þessi áform undir mig. Ég var ekki lengi að samþykkja þetta boð enda hef ég verið mikill aðdáandi seríunnar í mörg ár.

Auglýsing

Máttu segja okkur eitthvað frá þessari sögu sem vinkona þín Anam ritaði, sem fylgir útgáfunni?

Ég er búinn að þekkja Anam frá því um 2006, en við kynntumst á Myspace og hittumst í raun ekki í persónu fyrr en fyrir rúmu ári. Hún er frá Pakistan en hefur verið mikið í London þar sem ég er líka mikið. Hún er skemmtilegur rithöfundur en hún hefur ekki ennþá fengið neitt almennilega útgefið eftir sig. Það er hefð fyrir því að Late Night Tales plöturnar endi á smásögum eða orðlist, yfirleitt lesið af þekktum leikurum. Ég nýtti sambönd mín í gegnum Broadchurch og náði að plata David Tennant (Broadchurch, Dr. Who, Jessica Jones…) til þess að vera með og datt þá í hug að þetta væri frábært tækifæri til að koma skrifum Anam á framfæri. Mér fannst líka skemmtilega áhugavert að sagan sjálf er skrifuð út frá kvenlægu sjónarhorni en lesin með þessari karlmannlegu, skosku rödd David Tennant.

Hvernig var í París?

Alltaf gaman að spila í París. Yndislegir aðdáendur þar þó þau geti stundum verið svolítið stíf. Ég lá reyndar í flensu svo ég náði ekki að gera mikið annað en að rétt svo dratta mér uppá svið og þrauka í gegnum tónleikana.

Er það ekki svo Louvre safnið í Maí?

Jú, þar verða ég og Nils Frahm góðvinur minn með sex tíma langan tónlistargjörning undir stóra glerpýramídanum 28. maí frá miðnætti til sólarupprásar. Við erum eitthvað að reyna að finna útúr því ennþá hvað nákvæmlega við ætlum að gera en þetta verður eitthvað áhugavert!

Ertu búinn að bóka gigg í Íran?

Ekki ennþá en ég er búinn að vera í smá rannsóknarvinnu varðandi „underground“ tónlistarsenuna bæði þar og í Pakistan. Kominn í samband við nokkra raftónlistarmenn og stefni á að ferðast til þessara svæða á næsta ári og kynnast og jafnvel vinna með einhverju fólki. Þetta svæði heillar mig svakalega mikið, ekki sérstaklega út frá þessari fordómafullu ímynd sem við hérna vestan megin á hnettinum höfum gjarnan af arabísku og persnesku svæðunum.

Kiasmos er með DJ sett á Paloma næstkomandi laugardag: Hvað geturðu sagt okkur um það?

Okkur datt nýlega í hug að byrja að gera DJ sett öðru hverju, sögðum „agent-inum“ okkar frá því og áður en við vissum af var hann búinn að bóka okkur á nokkra af stærstu og virtustu tekknó klúbbum í heiminum. Það kom fát á okkur enda höfum við í raun aldrei DJ-að áður í þessari mynd. Paloma settið er því nokkurskonar æfingagigg fyrir okkur, svo við séum komnir í smá æfingu áður en við mætum til Ibiza!

Emmsjé Gauti sagði að helsta ógnin sem steðjar að mannkyninu sé chemtrails og eðlufólk. Hvað finnst þér?

Illugi Jökulsson er helsta ógn mannkyns.

Hvern styður þú til embættis Forseta Íslands?

Ég hallast að Andra Snæ, ég þekki hann aðeins persónulega og aðeins af góðu. Afturámóti þarf hann að gerast aðeins meira sameiningartákn ef hann á að klára dæmið.

Saknarðu Prince?

Auðvitað. Gullið sem hefur komið uppúr þessum manni er óendanlegt og tónlistarheimurinn er ekki samur eftir þennan missi.

SKE er innilega sammála þessu. Hér er svo demó af Late Nights Tales útgáfunni sem Ólafur stýrir:

Auglýsing

læk

Ummmmm...

Instagram