fyrst ítalskt dægurlag, síðar – íslenskt trapplag …

Tónlist

Lagið sem Íslendingar þekkja sem Bjössi á mjólkurbílnum samdi Vittorio Mascheroni árið 1952 og á það sér jafnframt áhugaverða sögu; upprunalega hét lagið Papaveri e papera og fjallaði texti lagsins, sem saminn var af Mario Panzeri og Giuseppe Rastelli, um gjánna á milli almennings og stjórnmálamanna:

„Þetta barnslega lag fjallar um endur og draumsóleyjar og er í raun allegóría um stjórnmál, þar sem hávöxnu draumsóleyjarnar standa fyrir volduga stjórnmálamenn og endurnar tákna óbreytta borgara, sem ekki mega blanda sér í málefni þeirra.“

Nánar: https://lyricstranslate.com/en/…

Ítalska söngkonan Nilla Pizzi söng lagið fyrst (sjá hér fyrir ofan):

Ári seinna, eða í desember 1953, gerði söngkonan Diana Decker lagið frægt í Bretlandi undir nafninu Poppa Piccolino og klifraði það upp í 2. sæti breska vinsældalistans stuttu eftir útgáfu (sjá hér fyrir ofan). 

Texti lagsins var saminn af Bob Musel og í útgáfu hans glataði textinn sinni
upprunalegu pólitísku merkingu; Poppa Piccolino fjallar um ítalskan
konsertínuleikara sem flakkar á milli staða og spilar fyrir gangandi vegfarendur er apinn hans safnar aurum frá áhorfendum.

Nánar: https://lyricsplayground.com/al…

Þegar lagið ratar loks til Íslands má segja að texti lagsins hafi færst enn fjær upprunanum: Haukur Morthens syngur um hressan bílstjóra sem keyrir eins og ljón og er hið mesta kvennagull. Textann samdi Loftur Guðmundsson.

Á vefsíðunni www.stefaniasteinunn.wordpress.com er að finna áhugaverðan texta um tilurð lagsins:

Nánar: https://stefaniasteinunn.wordp…

„Eitt sinn bjuggu þeir Haukur Morthens (sem þá var pentari í Alþýðuprentsmiðjunni, sem m.a. prentaði Alþýðublaðið) og Loftur Guðmundsson (sem þá var blaðamaður við það sama blað) hlið við hlið í Skipasundinu … einu sinni sem oftar kom Haukur að máli við Loft og fór þess á leit við hann að hann setti saman texta við ítalskan slagara “Poppa Picolino” sem Haukur hafði heyrt og langaði til að syngja.  Loftur kemur ekki strax með textann, en er að hugsa um þetta – og hvers konar texti falli vel að þessu lagi … í Skipasundinu bjó einnig á þessum tíma maður sem keyrði mjólkurbíl á þessari leið. Loftur fékk far með bílstjóranum. Þeir þurftu að koma við á ýmsum stöðum og afhenda pakka hér og pakka þar … bílstjórinn (var) bæði greiðvikinn og léttur í lund … hvað um það, þessi ferð Lofts með bílnum varð kveikjan að textanum um Bjössa á mjólkurbílnum … bílstjórinn … hét Björn Bergsteinn Björnsson.“ 

– Ragnhildur Björnsdóttir

En ekki endar sagan með Hauki Morthens:  

Fyrir stuttu gaf tónlistarmaðurinn Le Múrinn (einnig þekktur sem Björn Leví
Óskarson) út myndband við lagið Bjössi á mjólkurbílnum (nánar tiltekið
síðastliðinn 18. apríl). Í samtali við SKE lét Le Múrinn eftirfarandi ummæli falla: 

„Lagið og myndbandið er ádeila á einokunarstefnu MS í mjólkursölu á íslandi.“ 

– Le Múrinn

Þó svo að þetta sé nú líklegast ákveðið grín hjá Le Múrnum fylgir öllu gamni nokkur alvara. Því má kannski segja að í dag, 65 árum seinna, hafi lagið sem upprunalega kom út undir titlinum Papaveri e papera og fjallaði um volduga stjórnmálamenn, sé á góðri leið með að fara hringinn – á Íslandi. Í formi trapps. 

Le Múrinn er með ýmislegt á pönnunni og er von á meiri músík snemma í sumar.

Áhugasamir geta fylgst með Le Múrnum á Facebook:

https://www.facebook.com/lelem…

Auglýsing

læk

Instagram