Gauti býður stórtækum fjárfestum í snekkjupartí

Í þessum rituðu orðum stendur rapparinn Emmsjé Gauti fyrir fjármögnun á plötunni Vagg & Velta í tvöföldum vínyl á Karolina Fund ásamt því að vera önnum kafinn við undirbúning útgáfutónleika á NASA þann 14. júlí næstkomandi. Í tilefni þess heyrðum við í Gauta og spurðum hann nánar út í Karolina Fund, snekkjupartíið og nýkjörinn forseta lýðveldisins.

Nú stendur fjármögnun á útgáfu plötunnar Vagg & Velta á tvöföldum vínyl. Hvernig gengur og hvað geta menn gert til þess að styðja verkefnið?

Það gengur ágætlega. Í þessum rituðu orðum er ég búinn að safna tæplega 100 þúsund krónum upp í framleiðslukostnað. Það eru margir sem misskilja þetta og halda að maður sé að biðja um styrk án þess að fólk fái eitthvað tilbaka en í raun er fólk að borga fyrir vöruna fyrirfram. Ef nógu margir kaupa vöruna þá fer hún í framleiðslu. Ég ákvað að fara þessa leið því það er dýrt að framleiða vínyl og ég veit ekki hvernig markaðurinn liggur. Ef eftirspurnin er nægileg þá fer hún í framleiðslu. Þetta er sniðugt batterí. Einnig er hægt að kaupa aðra pakka sem innihalda aðrar vörur, allt frá nælu merkta plötunni upp í einkatónleika á snekkju. Allt er þetta gert í þeim tilgangi að fjármagna vínyl framleiðsluna. Ef ég næ ekki tilsettu markmiði kemur platan þó út á geisladisk og í streymisformi á netinu svo það er engin hætta á að nýju lögin komi ekki út.

Ef einhver ákveður að styrkja verkefnið með 497.000 króna framlagi, þá lofarðu að bjóða viðkomandi í tveggja tíma snekkjupartí, þar sem þú tekur lagið og splæsir í rautt og hvítt. Hvaðan kom hugmyndin að þessu?

Upphaflega setti ég upp plan um að halda tónleika í þyrlu og það hefði kostað aðeins meira. Svo fattaði ég að það væri örugglega frekar erfitt að halda tónleika í þyrlu ef til þess kæmi að einhver myndi fjárfesta í þeirri hugmynd. Ég fór þá að skoða möguleikana á því að leigja lúxussnekkju og halda tónleika um borð. Það er miklu raunhæfara og væri ekki svo erfitt að framkvæma ef einhver hefði áhuga á því að fara út á haf, drekka gott vín og hlusta á rapptónlist.

Ef maður skoðar stuðningsfólk verkefnisins, þá hafa listamennirnir Páll Óskar, Berndsen og Kött Grá Pje allir stutt við bakið á þér. Hvaða „celeb“ myndirðu helst vilja sjá á þessum lista til viðbótar?

Ég væri helst til í að sjá alla á þessum lista. Það er æðislegt að sjá aðra listamenn styðja við bakið á manni en það gerir alveg jafn mikið fyrir mig að Nonni úr Grafarholtinu kaupi af mér vínylinn.

Hvernig var á Solstice og hvað stóð upp úr?

Mér fannst Solstice algjör sturlun. Það eru nokkur beitt horn sem þarf að slípa svo hátíðin fái toppeinkunn en ég er mjög ánægður með að sjá þetta format af tónlistarhátíð ganga upp á Íslandi. Það sem stóð uppúr hjá mér voru Die Antwoord tónleikarnir. Þetta var í annað skipti sem ég sá þau live. Í fyrra skiptið lét ég þau orð útúr mér að þetta væri besti live performance sem ég hafði séð og ég stend enn við þau orð.

Þú ætlar að halda útgáfutónleika á Nasa þann 14. júlí og í tilkynningu á Facebook segirðu að það hafi verið nauðsynlegt að „minnka venjulegan miðafjölda verulega vegna breytinga á sviðinu.“ Er eitthvað rosalegt að fara í gang?

Já. Ég er að fara að vaða í hugmynd sem mér hefur dreymt lengi um að framkvæma. Vonandi gengur hún almennilega upp eins og ég sé hana fyrir mér. Ég get því miður ekki upplýst ykkur um hvað gerist nákvæmlega. Það má ekki taka spennuna úr þessu.

Þú studdir Andra Snæ í framboði en ertu ánægðar með Guðna?

Já, ég er alls ekki ósáttur með Guðna þó svo að Andri hefði endað á Bessastöðum ef ég hefði fengið að velja. Guðni virkar eins og fínn kall með gott hjarta. Vonandi sannar hann sig sem maður fólksins og við skulum biðja fyrir því að forsetaembættið stígi honum ekki til höfuðs. Valdastöður eiga það til að valda usla í heilabúinu á fólki.

Hver er uppáhalds leikmaðurinn þinn í íslenska landsliðinu?

Aron Gunnarsson. Hann er góður vinur með gott hjarta og flott skegg. Hann stendur sig frábærlega í því hlutverki sem hann gegnir í landsliðinu.

Hvenær kemur nýja myndbandið út?

Það átti að kom út fyrir útgáfu á plötunni en kvikmyndafólk er ekki með á hreinu hvernig klukkur virka. „Klukkutími“ hjá kvikmyndagerðarmanni getur verið allt upp í sólarhringur. Það kemur samt út í þessum mánuði. Þetta er í höndunum á fagfólki sem ég elska að vinna með og treysti fullkomnlega fyrir flottri útkomu. Ég kenni þeim á klukku við tækifæri.

Eru chemtrails og eðlufólk ennþá helsta ógn mannkynsins?

Já, og róandi efni sem er sett í Colgate tannkrem til að hafa stjórn á mannkyninu.

Eitthvað að lokum?

Verið góð við hvort annað og hlustið á rapp.

Auglýsing

læk

Instagram