Geiri Smart

[the_ad_group id="3076"]

Þegar ég heimsótti Geira Smart í fyrsta skiptið voru framkvæmdir í gangi á Hverfisgötunni. Borað hafði verið í götuna með ýmsum og stórum vélakostum og gatan breytt í eyðliand steins og steypu. Það sem áður var fremur subbuleg gata í annars tiltölulega glæsilegri borg var um stund lækkuð í tign og minnti nú helst á tökustað fyrir Hollywood kvikmynd um morðóða uppvakninga.

Ég bjóst eiginlega við því að kaosið á Hverfisgötu mundi setja strik í reikning kvöldverðar míns – en ég hafði rangt fyrir mér; hugur minn, heillaður eins og hann er af eilífs núnings andstæðra afla, naut þess hvernig óreiðan á Hverfisgötunni stangaðist á við guðdómlega andrúmsloftið á Geira Smart. Fáir veitingastaðir eru jafn fallega hannaðir og Geiri Smart: allt, frá húsgögnunum til gólfefnisins, frá hnífapörunum til listaverkanna á veggjunum, komu saman eins og vel stillt hljóðfæri í skipulagðri sinfóníu undir stjórn Karajan (ég sofnaði yfir heimildarmynd um austurríska hljómsveitarstjórann í gær).

Þegar við mættum, vinkona mín og ég, tók þjónninn á móti okkur við innganginn. Hann var smart klæddur (viljandi orðaleikur ) í einkennisbúning sem rímaði við klæðnað hinna þjónanna; annað hvort voru reglur um klæðnað í gildi á meðal starfsmanna eða starfsmenn Geira Smart voru að lifa sig inn í hugtakið Bad Faith eftir Sartre (kannski hvort tveggja). Hver sem staðreyndin var, þá bætti klæðnaðurinn lag af fagmennsku í þegar tilkomumikið jarðlag staðarins.

Þjónnninn fylgdi okkur að borði við glugga sem sneri út á Hverfisgötuna og rétti okkur síðan matseðla. Platan Black Messiah eftir D’Angelo hljómaði í hátölurunum, en hún er ein af mínum uppáhalds plötum. Ekki skemmdi það fyrir. Seinna sagði kokkurinn mér frá því að ekki væri formlega búið að hanna lagalistann (playlist) á Geira Smart. Ég mælti fyrir því að D’Angelo yrði áfram í forgrunni.

[the_ad_group id="3077"]

Eftir að hafa þaullesið matseðilinn ákváðum við loks að gæða okkur á fimm rétta veislu sem ber titilinn Í spilun (11.500 á mann), þar sem viðskiptavinir staðarins eru hvattir til þess að treysta sköpunargáfu kokkanna. Það er gott, endrum og eins, að vera leystur undan kvöð sköpunarmáttsins – trúið mér; ég er misheppnaður rithöfundur.

Með hverjum rétti fékk ég vínglas og þar sem ég pantaði mér einnig Cat’s in the Cradle kokteilinn (Pisco, Sítróna, Eggjahvíta og Angustura Bitters) fyrir máltíðina – varð ég fljótt sérdeilis rallhálfur. Maturinn var æðislegur, borinn fram í litlum en bragðmiklum skömmtum, og var framsetningin listræn. Ég var sérstaklega hrifinn af þorskinum, sem var borinn fram með svörtum hvítlauk, gerjuðum kartöflum, hvítum lauk og skessujurt. Glóðaði urriðinn var líka góður og var eftirrétturinn frábær: sýrður rjómaís með brómberjum, lakkrís, rauðrófukaramellum og súkkulaðikurli.

Ef þú hefur áhuga á því að borða fínt í miðbæ Reykjavíkur þá mun Geiri Smart ekki valda þér vonbrigðum. Markmiðslýsing Geira Smart hljóðar eitthvað á þennan veg: „Að taka tillit til sérviskunnar í framúrstefnulegri matargerð er kjarni veitingastaðarins Geira Smart.“ Vinkona mín átti erfitt með að skilja þessi orð (þau voru á ensku) en ég sagði henni að þetta „make-aði sense.“

Það gerir það.

(Geiri Smart er staðsettur á Hverfisgötu 30 og er hluti af Canopy by Hilton hótelinu.)

https://www.geirismart.is/is

Orð: Skyndibitakúrekinn

Auglýsing

læk

Instagram