„Góð leið til að gefa út á örari hátt.“—SKE spjallar við Kaktus Einarsson úr Fufanu (myndband)

Viðtöl

Nýverið heimsótti SKE Jaðar Íþróttafélagið í Dugguvogi 8 og þá í því augnamiði að spjalla við Kaktus Einarsson—söngvara hljómsveitarinnar Fufanu—en viðtalið var liður í myndbandsseríunni SKE Tónlist þar sem SKE ræðir við listakonur og menn um sköpun sína (sjá hér að ofan).

Tilefni viðtalsins—ef hægt er að tala um slíkt—var útgáfa smáskífunnar The Dialogue Series 1 sem Fufanu gaf út fyrr í sumar en smáskífan er sú fyrsta í röð þriggja skífna. Næsta plata er væntanleg í ágúst.  

Líkt og fram kemur í viðtalinu byrjaði Fufanu að semja nýja tónlist á meðan á síðasta tónleikaferðalagi þeirra stóð (í kjölfar útgáfu plötunnar Sports) en í ljósi þess hversu mörg og mismunandi umrædd lög voru datt hljómsveitarmeðlimunum í hug að gefa út röð stuttskífna: 

„Þá kom þessi hugmynd að gefa út smáskífur. Upprunalega hugmyndin var sú að gefa út eina tekknó smáskífu, svo eina popp smáskífu, o.s.frv. en svo þróaðist sú hugmynd út í það að hafa eitt lag úr hverjum flokki á hverri plötu. Þetta var hugmyndin—en á sama tíma var þetta líka leið til þess að gefa út tónlist á örari hátt; við þyrftum ekki endilega að bíða eftir næstu útgáfu, því að það þarf að skila af sér og fara í framleiðsluferli og hitt og þetta.“

– Hrafnkell Flóki Kaktus Einarsson

Þess má einnig geta að Fufanu treður upp á Kex Hostel næstkomandi miðvikudag (8. ágúst) en það er frítt inn á tónleikana og allir áhugasamir hjartanlega velkomnir:

„Við í Fufanu fundum loksins glufu í tónleikadagskrá sumarsins til að geta blásið til tónleika heima á Íslandi. Við höfum verið uppteknir allt þetta ár við að klára nýja plötu, æfa hana og koma henni í tónleikaform og svo túra á tónleikahátíðum í Evrópu. Við höfum stöðugt verið að leita af tímasetningu sem myndi henta fyrir tónleika heima og loksins fundum við hana á milli Írlands og Berlínar.“

Nánar: https://www.facebook.com/event…

Auglýsing

læk

Instagram