„Hef mikinn áhuga á konum sem semja og spila sjálfar.“—SKE spjallar við Elínu Sif

Auglýsing

Viðtöl

SKE: Hæfnin til að hughreysta er vanmetinn hæfileiki—sérstaklega í ljósi þess óhóflegs votviðris sem eyjarskeggjar hafa þurft að venjast síðastliðin misseri. Á dimmum sumardögum grípur hver og einn til sinna ráða; sumir hrekja vonleysið á brott með hugleiðslu á meðan aðrir flýja suður því íslenskt sumar er, jú, skoplegt afskræmiléleg túlkun á sígildu verki. Ár hvert hyglar leikstjórinn (hver sem hann nú er) eigin listrænni sýn á kostnað kunnuglegri og geðugri hliðum verksins: Þetta er bágborin túlkun, þar sem hin arftekna söguhetja, sólin, er gert að sitja skör lægra en skýið, sem er yfirleitt í aukahlutverki í öðrum löndum. En hvað sem lélegri list líður eiga eflaust margir landsmenn, undirritaður þar með talinn, tónlistarfólki geðheilsu sinni að þakka (sumsé, hæfari listamönnum en hinum miskunnarlausa himnakonungi). Í því samhengi er vert að minnast á nýtt lag eftir söngkonuna Elínu Sif, “Make You Feel Better,” sem er óneitanlega ákveðin hugsvölun í tónlistarformiog ber því nafn með rentu. Í tilefni útgáfunnar heyrði SKE í Elínu Sif og spurði hana út í listina, lífið og ýmislegt annað.

Viðtal: RTH
Viðmælandi: Elín Sif Halldórsdóttir

SKE: Sæl og blessuð, Elín. Hvað segirðu gott?

Auglýsing

Elín Sif: Ég er bara mjög hress í dag, þrátt fyrir veðrið …

SKE: Til hamingju með lagið (“Make You Feel Better”). Hvernig kom það til?

Elín Sif: Lagið kom eiginlega til mjög hratt. Ég var með hugmynd að viðlagi og fékk Reyni Snæ (gítarleikara) til að semja gítarpart við það. Síðan djöflaðist ég með erindin í svona tvær vikur og þá var það komið. Við ákváðum svo að láta ekki lengi við sitja og gefa þetta út eins skjótt og við gátum.

SKE: Fyrir þá sem ekki þekkja til þín: Hver er Elín Sif, hvað gerir hún — og fyrir hvað stendur hún?

Elín Sif: Ég er að stíga mín fyrstu skref í tónlistarbransanum. Ég er búin að vera að semja lengi en hef ekki verið að gefa neitt út undir eigin nafni í nokkur ár (í raun ekki síðan að ég keppti í Söngvakeppninni 2015). Síðan þá hef ég verið að þróa minn stíl og mínar hugmyndir um hvernig listakona ég vil vera. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á konum sem eru að semja og spila sjálfar og hafa sterka ímynd; það er eitthvað sem mig langar að stefna að. Annars er einlægni í tónlistinni nokkuð sem skiptir mig máli.

SKE: Lagið var unnið í samstarfi við Þorvald ‘Dodda trommara’ Þorvaldsson (sem er jafnframt í miklu uppáhaldi hjá okkur) og Reyni Snæ. Hvernig kom samstarfið til?

Elín Sif: Ég og Reynir ræddum mikið um það hvern við gætum fengið með okkur í þetta. Eitt kvöldið hringdi svo Doddi í Reyni upp úr þurru og okkur datt í hug að biðja hann um að búa til beat fyrir lagið. Síðan vatt þetta bara upp á sig og Doddi endaði á því að taka upp lagið fyrir okkur og vinna það alveg til enda. Þvílíkur snillingur sá kall.

SKE: Byggist texti lagsins á sannsögulegum atburðum — eða er þetta alfarið skáldskapur?

Elín Sif: Það er blanda af báðu. Viðlagið er að mestu leyti bara gert til að kalla fram bros. Þegar ég fór í að semja erindin þá læddist einhver dramatík inn í þetta. Boðskapurinn er þó mjög einfaldur: bara að kýla á hlutina og ekki leyfa neinum að setja þér takmörk. Mér finnst mjög mikilvægt að muna að vera samkvæmur sjálfum sér.

SKE: Við fyrstu hlustun hugsuðum við til Sigrid, Maggie Rogers, Lykke Li. Eru þetta listakonur sem hafa haft áhrif á þig? Ef ekki, hvað eða hverjir veita þér innblástur?

Elín Sif: Algjörlega, eins og ég sagði hér ofar þá er ég mjög hrifin af svona singer-songwriter stelpum og leita mikið í innblástur frá þeim. Íslenskir tónlistarmenn veita mér einnig innblástur, þá sérstaklega þeir sem maður sér að eru að leggja mikið á sig og vinna gott efni. Þrátt fyrir að minn grunnur sé alltaf gítarinn minn og sönglið þá finn ég að ég verð fyrir stöðugum áhrifum af stóru rappsenunni hérna heima. Ég held ég fari þó seint að rappa en ég finn það hefur breytt minni nálgun á lagasmíðum og slíku.

SKE: Hvað er framundan? Plata, tónleikar, myndband?  

Elín Sif: Ég hugsa að það séu líklegast nokkur fleiri stök lög á leiðinni. Hvað myndbönd varðar þá hef ég ekki gefið því mikla umhugsun ennþá. Ég á nóg efni í plötu svo það er markmið sem ég er klárlega að vinna að.

SKE: Uppáhalds bók — og hvers vegna?

Ég las bókina Annie John efitr Jamaica Kincaid og gat ekki hætt að hugsa um hana. Ég gæti skrifað heillangan texta hverju og hvernig bókin hreyfði við mér en ég vil reyna að halda mér við efnið. Bókin er einfaldlega mögnuð!

SKE: Helsta prinsipp í lífinu?

Elín Sif: Hef það í stíl við boðskap lagsins: Standa með eigin sannfæringu og vera samkvæmur sjálfum sér. Svo að vera góð; það er mikilvægt. Einfalt — en svo mikilvægt. 

SKE: Eftirlætis tilvitnun?

Elín Sif: “Betsy’s been dead for 10 years.”

Nei, án gríns: Ég veit það ekki. Ég er mikið í Friends tilvitnunum. Fer örugglega eftir því hversu mikið þú hefur horft á Friends hversu mikið þú fattar yfir höfuð húmorinn minn … jæja.

SKE: Eitthvað að lokum?

Elín Sif: Ég vona bara að þið njótið nýja lagsins míns og sumarsins þrátt fyrir litla sól hér í Reykjavík. Ef ykkur finnst veðrið íþyngjandi þá getið þið hlustað á lagið; ég lofa að það mun “Make You Feel Better.”

(SKE þakkar Elínu Sif kærlega fyrir spjallið og hvetur lesendur til að hlýða á nýja lagið, sem og að fylgjast með tónlist hennar í framtíðinni).

Auglýsing

læk

Ummmmm...

Spaghetti Carbonara

Instagram