Hugrænt misræmi—hugleiðingar um nýjasta myndband Eminem: „Venom“

Ég viðurkenni að ég er ekki mikill aðdáandi bandaríska rapparans Eminem, að minnsta kosti hvað afrakstur síðastliðinna ára varðar. Finnst mér oft eins og að rapparinn sé aldurhniginn töframaður, sem vakti hrifningu aðdáenda í dentíð—og þá með ótrúlegum klókindum á sviði orðasmíðs—en hvers brögð eru í dag, því miður, þreytt; togar hann sífellt sama hérann upp úr pípuhattinum (lesist Do-Rag) og ætlast til þess að hlustendur slái saman lófum. 

En fjandinn hirði þennan héra.

Bjóst ég því ekki við miklu af plötunni Kamikaze sem rapparinn gaf út í lok sumars, og viti menn: við fyrstu hlustun verkaði platan á mig sem staðfesting á fyrri skoðun, sumsé að hér væri á ferðinni tónlistarmaður sem gat munað fífil sinn fegri—og væri, fyrir vikið, beiskur (og það er fátt jafnt andstyggilegt og beiskur listamaður). Í nánast hverju einasta lagi plötunnar stökk rapparinn upp á nef sér, örvita af reiði, en ekki sökum þeirrar yfirvofandi hamfara sem gervallt mannkynið stendur frammi fyrir, heldur vegna þess að rapparar nú til dags eru svo lélegir. 

Er ég sannarlega sammála Eminem að margir nútímarapparar eru frekar ómerkilegir, en er ég þó alls ekki sannfærður um að hann sjálfur sé nokkru betri. Vissulega getur hann rappað hraðar en flestir aðrir rapparar, og vissulega eru fáir jafn leiknir í því að púsla saman rímum á jafn lygilegan hátt og hann (og vissulega er flæðið fágað)—en yfirleitt eru rímaðir reiðipistlar hans innihaldslausir. Eminem hefur fullkomnað formið (að einhverju leyti), en innihaldið er ofast ómerkilegt með öllu. 

Þessar hugleiðingar flugu í gegnum huga mér í gær er ég horfði á myndbandið við lagið Venom sem rapparinn gaf út nú á dögunum. Hugleiðingarnar tóku hins vegar á sig nýja mynd í ljósi gæsahúðarinnar sem myndbandið, sem og lagið, orsakaði. Eins og alþjóð veit þá er gæsahúð áreiðanlegt merki um gæði í tónlist, sem kom mér á óvart þar sem skoðun mín á tónlist rapparans, sem og á laginu sjálfu, hafði ekkert breyst (ég gaf laginu þó kannski ekki nægilegan gaum við hlustun á plötunni). Sú tilfinning sem spratt upp í brjósti mér í kjölfarið fannst mér vera eitthvað í ætt við hugrænt misræmi, en þessu merkilega hugtaki eru gerð góð skil á Wikipedia:

„Hugrænt misræmi (eða hugarmisræmi) (ens. cognitive dissonance) er sálfræðilegt hugtak er lýsir andlegum óþægindum sökum misræmis sem hlýst af því þegar tvær andstæðar skoðanir, hugmyndir eða gildi stangast á, eða þegar vitneskja og skoðanir rekast á eða ganga í berhögg við lífspeki viðkomandi, svo að brýnt getur orðið að breyta um hátterni eða skipta um skoðun til að eyða ósamræminu. Hugarmisræmi myndast oft þegar nýjar upplýsingar stangast á við skoðanir, hugmyndir eða gildi.“

Nánar: https://is.wikipedia.org/wiki/…

Í mínu tilfelli stangaðist lífspeki mín, sem og skoðun mín á tónlist Eminem almennt, við gæsahúðina sem lagið Venom framkallaði. 

Síðan þá hef ég reynt að ráða fram úr merkingu þessarar tilfinningu: Hvað þýðir það að fá gæsahúð yfir einhverju sem maður er andsnúinn? Áður fyrr hefði ég kannski hunsað þessa gæsahúð og látið sem hún hafi ekki átt sér stað (og þá aðallega til þess að viðhalda kúlinu) en ég er að reyna að temja mér hreinskilni, sérstaklega gangvart sjálfum mér. 

Því næst velti ég fyrir mér hvort að hér væri ekki auðveldast að styðjast við klisjuna sakbitin sæla og halda ótrauður lífinu áfram. En það fannst mér bera vott um grunnhyggni og hugsunarleysi. 

Síðasta tilraun mín til réttlætingar var í raun rökfræðilegt heljarstökk, sumsé að afsaka ósjálfráð viðbrögð mín með þeirri frumlegu retórík að tónlistin sjálf hefði orsakað gæsahúðina og að hlutverk og texti rapparans hafi átt lítið með hana að gera—en þetta var ekki rétt: rödd, flutningur, texti og jafnvel handapat Eminem spiluðu óneitanlega rullu. 

Að lokum komst ég að þeirri niðurstöðu að í þessari togstreitu á milli tilfinninga og raka (skynsemis) kristallast vandamál mannlegrar tilvistar: að tilfinningar, eðlishvatir og venjur stangast alltof oft á við það sem manni finnst skynsamlegt eða rökrétt. Þó svo að ég mótmæli, heils hugar, sjálfhverfu, þröngsýni og fyrirsjáanleika tónlist rapparans Eminem, og vilji miklu frekar hlusta á viðurkennda jaðarrappara—þá get ég, samt sem áður, ekkert gert við því þó að höfuðið hneigist lítillega í takt við lagið Venom.

Þannig er nú bara mannleg náttúra.

Knock knock, let the devil in /
Malevolent as I’ve ever been, head is spinnin’ /
This medicine’s screamin’, „L-L-L-Let us in!“ /
L-L-Like like a salad bowl, Edgar Allan Poe
 /
Bedridden, should have been dead a long time ago /

Orð: RTH

Auglýsing

læk

Instagram