„Pæli ekki mikið í því hvað aðrir gera.“—Peter Overdrive gefur út „Truflandi Taktfjandi“

Viðtöl

SKE: Þann 16. júlí, 2016, birti vefsíðan The Daily Beast grein eftir blaðamanninn Ted Gioia og þá undir yfirskriftinni „Bansky, Daft Punk og Elena Ferrante: Nýi sértrúarsöfnuður hins nafnlausa listamanns.“ Í greininni er listafólk sem fer huldu höfði til umfjöllunar og veltir höfundur því fyrir sér, um miðbik greinarinnar, hvort að nafnlausir listamenn séu ekki áreiðanlegri en aðrir listamenn—og þá sökum þess að frægðin, fyrir þeim, hefur sér engan ábata; þetta er bara venjulegt fólk, segir höfundur, sem skapar list listarinnar vegna. Meðal þess fólks sem getið er í greininni er ítalski höfundurinn Elena Ferrante, breski götulistamaðurinn Banksy og hinn japanski Satashi Nakamoto, höfundur Bitcoin (þjóðerni og kyn þessa fólks liggur, vitaskuld, ekki fyrir). Hvort sem fyrrnefndir listamenn séu traustari en aðrir listamenn, vitum við ekkert um, en viðurkennum þó að það er sannarlega hressandi að fyrirhitta fólk sem beygir sig ekki undir sjálfsdýrkunaræði nútímans. Í því samhengi er þess virði að minnast á íslenskan rappara sem gengur undir listamannsnafninu Peter Overdrive. Hann gaf nýverið út stuttskífuna Truflandi Taktfjandi í samstarfi við taktsmiðinn Fonetik Simbol (Two Toucans, Cheddy Carter, Original Melody). Í tilefni útgáfunnar heyrði SKE í Overdrive og spurði hann spjörunum úr. 

Viðtal: RTH
Viðmælandi: Peter Overdrive

SKE: Já, góðan daginn. Hvað segirðu gott?

Peter Overdrive: Góðan daginn, ég verð því miður að viðurkenna að ég segi allt drullufínt.

SKE: Þú varst að gefa út stuttskífuna Truflandi Taktfjandi. Hvernig kom platan til?

PO: Platan var tekin upp 2013. Þá sendi Fonetik mér nokkra geisladiska fulla af loop-um. Það getur verið truflandi að vera alltaf að fá sendar nýjar hugmyndir, endalaust. Þaðan kom nafn plötunnar Truflandi Takfjandi. Fonetik sendi mér nýtt stöff á fimm daga fresti, var alltaf að trufla mig í stúdíóinu svo ég endaði með fjórar EP plötur. Þetta er ein af þeim. Hinar koma út seinna.

SKE: Í texta titillagsins er að finna eftirfarandi línu: „Flokka 500 djassplötur.“ Ertu mikill vínylgrúskari—og ef svo er, hvaða plata er í uppáhaldi?

PO: Já, ég held mikið upp á vínylinn. Uppáhalds platan mín er Mr. Hands með Herbie Hancock.

SKE: Samplið ræður ríkjum á skífunni. Á Íslandi er svolítið eins og að vægi sampl-menningarinnar fari minnkandi. Er þetta ekki slæm þróun? 

PO: Ég pæli ekki mikið í því hvað aðrir gera. Næstum öll tónlist sem kemur út í dag inniheldur sömpl af einhverju tagi. En það sem ég fíla mest við sömplin í Hip Hop tónlist er að maður uppgötvar gamla tónlist í gegnum nýja tónlist. 

SKE: Tveir gestir koma við sögu á skífunni: Kráka og Vald Wegan. Hvaða menn eru þetta? 

PO: Þetta eru menn úr Laugardalnum. Ég hef þekkt þá í fjölmörg ár. Þeir þekkja sundin eins og handabakið á sér. 

SKE: Nú tekur árið 2018 senn enda. Hvað lag, eða plata, stóð upp úr, að þínu viti, á árinu? 

Mér finnst erfitt að nefna eina plötu en Roc Marciano, Tierra Whack og Westside Gunn komu mér á óvart á árinu.

SKE: Eitt lag sem allir verða að heyraog hvers vegna?

SKE: Eitthvað að lokum? 

PO: Tékkið á www.lowkey.bandcamp.com—nýtt efni væntanlegt.

(SKE þakkar Peter Overdrive kærlega fyrir spjallið og hvetur lesendur til að hlýða á plötuna Truflandi Taktfjandi. Hún er meðal annars aðgengileg á Spotify.)

Auglýsing

læk

Instagram